140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[12:58]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er reyndar þannig að ef maður greinir þetta er það trúlega sjávarútvegurinn sem nýtur umfram flestar ef ekki allar greinar beinlínis góðs af hinu lága gengi því hann byggir í litlum mæli á innfluttum aðföngum, öfugt við t.d. stóriðjuna þar sem þetta jafnast að hluta til út í bókhaldinu. Sjávarútvegurinn er með 80% eða svo af allri sinni veltu innan lands og verðmætisaukinn af starfsemi hans er að uppistöðu til innan innlenda hagkerfisins þar sem hann byggir á aðföngum sem eru að stærstum hluta innlend. Í því ljósi hefur meðal annars hækkun veiðigjaldsins verið rökstudd með því að sjávarútvegurinn búi við geysilega hagstæð skilyrði að þessu leyti og mikið og gott tekjustreymi. Fyrirtæki þar hafa verið að borga niður skuldir, enda voru þær því miður allt of miklar fyrir, en við sjáum að staðan þar hefur verulega lagast á þeim þremur árum sem sjávarútvegurinn hefur núna búið við mjög hagstætt gengi. Þannig held ég að það séu ákveðin rök fyrir því að horfa til þess, sérstaklega vegna þess í hvaða stöðu sjávarútvegurinn er um þessar mundir, að veiðigjaldið sé tæki til að láta hann leggja sitt af mörkum. Við höfum í litlum mæli látið önnur fyrirtæki eins og álfyrirtækin leggja í púkkið í gegnum raforkugjald, en samningar við þau eru hins vegar erfiðleikum bundnir vegna ákvæða sem þau hafa í gömlum fjárfestingarsamningum sem verja þau mjög vel fyrir þátttöku í ýmsum tekjuöflunaraðgerðum af þessu tagi.

Í það heila tekið held ég að til lengri tíma litið sé eðlilegast að þetta leiti jafnvægis í gegnum þau tæki og tól sem til þess eru ætluð, þar á meðal og ekki síst raunhæft jafnvægisgengi á gjaldmiðlinum.