140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[13:31]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um fjársýsluskatt. Það er 193. mál á þskj. 198. Frumvarpið er, eins og fram kom í umræðum morgunsins, liður í sérstökum tekjuöflunaraðgerðum fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2012, auk þess sem það er almenn breyting í skattlagningu. Um aðrar sérstakar tekjuöflunaraðgerðir er fjallað í öðrum frumvörpum þar sem hér er um að ræða sjálfstætt frumvarp og ný lög um fjársýsluskatt. Önnur ákvæði sem varða tekjuforsendur fjárlaga er að finna í bandormi sem var á dagskrá næst á undan, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, og hins vegar áformaða hækkun veiðigjalds í frumvarpi sem væntanlega verður flutt af hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Með frumvarpi þessu til laga um fjársýsluskatt er lagt til að tekinn verði upp nýr skattur sem við höfum kosið að kalla fjársýsluskatt á fjármálafyrirtæki, vátryggingastarfsemi og lífeyrissjóði. Þá nær sú skattskylda einnig til útibúa, umboðsmanna og annarra sem eru í fyrirsvari fyrir erlenda aðila sem reka sams konar starfsemi á Íslandi. Áætlaðar tekjur af skattinum eru um 4,5 milljarðar kr. á árinu 2012.

Við samningu frumvarpsins var meðal annars horft til ábendinga frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem unnið hefur mikið starf með íslenskum stjórnvöldum í að fara yfir skattalagaumhverfi okkar og skilað tveimur skýrslum þar um. Ein af tillögum sjóðsins er að horft verði til upptöku á fjársýsluskatti eða skatti af þessum toga á fjármálastarfsemi sem ekki er virðisaukaskattsskyld. Sérstaklega hefur verið tekið mið af dönskum lögum um sambærilegan skatt sem þeir kalla launaskatt, þ.e. með leyfi forseta, „lønsumsskat“, sem er í raun sama nafn og fjársýsluskattur sem á enskri tungu er stundum kallaður FAT-skattur sem stendur fyrir Financial Activities Tax. Hér er því um vel þekkt fyrirbæri að ræða í alþjóðlegri umræðu um skattlagningu fjármálastarfsemi.

Auk þess er af því að segja að á alþjóðavettvangi er mikið rætt og skrifað um skattlagningu á fjármálafyrirtæki. Það skýrist meðal annars af þeim mikla kostnaði sem hagkerfin hafa mörg haft af fjármálastarfseminni sem á árum áður höfðu mikinn hagnað, bjuggu við lágar skattgreiðslur en hafa núna kostað hina sameiginlegu sjóði, ekki síst í Evrópu og Bandaríkjunum, mikla fjármuni. Þess má geta að eftir því sem ég best veit er í athugun í Noregi til að mynda að taka upp sambærilegan skatt eða einhverja hliðstæðu hans.

Varðandi nánari afmörkun á fjársýsluskattsskyldum aðilum ber að geta þess að skattskyldan samkvæmt frumvarpinu nær til þeirra aðila sem stunda þá starfsemi, þar á meðal vátryggingastarfsemi, sem undanþegin er virðisaukaskatti skv. 9. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Þá nær skattskyldan til þeirrar fjármálastarfsemi sem undanþegin er virðisaukaskatti á grundvelli 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. sömu laga.

Hvað lífeyrissjóðina varðar er lagt til að skattskyldan verði víðtæk og nái til allra lífeyrissjóða sem hafa starfsleyfi samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, lífeyrissjóða sem starfa samkvæmt sérlögum og einnig starfstengdra eftirlaunasjóða sem starfa samkvæmt lögum nr. 78/2007, um starfstengda eftirlaunasjóði.

Lagt er til að Íbúðalánasjóður verði skattskyldur samkvæmt lögunum en að svo komnu máli koma ekki aðrar opinberar stofnanir til álita, það væri væntanlega fyrst og fremst Byggðastofnun, en hugsanlega eru þær fleiri. Vegna eðlis starfa þeirra er þó tæpast talin ástæða til að þær greiði skattinn en um Íbúðalánasjóð gegnir talsvert öðru máli þar sem um stóran lánasjóð er að ræða með umfangsmikla fjármálastarfsemi sem er að hluta til í samkeppni við starfsemi þeirra fjármálastofnana sem falla hér undir.

Skattstofn fjársýsluskattsins er heildarlaunagreiðslur hjá þessum skattskyldu aðilum eða allar tegundir launa eða þóknana fyrir starf sem skattskyld eru skv. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Tæmandi upptalning á undanþágum frá skattstofni er í 5. gr. frumvarpsins. Eru þær í fyrsta lagi eftirlaun og lífeyrir sem skattskyldir aðilar greiða, í öðru lagi launagreiðslur í þeim hluta starfsemi skattskyldra aðila sem er virðisaukaskattsskyld, og loks eru greiðslur skattskyldra aðila vegna fæðingarorlofs undanþegnar að því marki sem þær eru ekki umfram þær greiðslur sem fást endurgreiddar úr Fæðingarorlofssjóði.

Lagt er til að skatthlutfallið verði 10,5% sem er það sama og gildir í Danmörku.

Varðandi framkvæmd álagningar fjársýsluskatts er lagt til að hann verði innheimtur í staðgreiðslu og lagður á með opinberum gjöldum. Með því móti er notuð framkvæmd sem fyrir hendi er. Þannig næst fram hagræðing og sparnaður bæði fyrir skattaðila sjálfa og skattkerfið.

Samhliða gildistöku laga um fjársýsluskatt er lögð til sú breyting á lögum um virðisaukaskatt að fella brott það ákvæði í lögum um virðisaukaskatt sem skyldar þá sem stunda fjármálastarfsemi og vátryggingastarfsemi til að skila virðisaukaskatti af þjónustu sem innt er af hendi eingöngu til eigin nota og í samkeppni við virðisaukaskattsskylda aðila. Sú breyting kemur þá á móti þeirri sem hér er á ferðinni.

Skyldan til að skila virðisaukaskatti af eigin þjónustu hefur verið nokkuð gagnrýnd gegnum árin vegna þess að á köflum hefur ekki þótt nógu skýrt til hvaða þjónustu hún á nákvæmlega að taka. Það má að vissu leyti taka undir þá gagnrýni en með þessari breytingu yrði þeirri óvissu að minnsta kosti eytt hvað fjármála- og vátryggingastarfsemi varðar. Ég sé ekki ástæðu, frú forseti, til að orðlengja um þetta frekar og mæli fyrir því að frumvarpið verði tekið til 2. umr. og meðferðar í hv. efnahags- og viðskiptanefnd.