140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[13:39]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Eftir því sem ég gleggst veit er skatturinn algjörlega sambærilegur því sem er í Danmörku að því leyti til að skattstofninn er hinn sami og prósentan er hin sama. Sú aðferð sem hér er valin, að innheimta þetta í staðgreiðslu gegnum það kerfi sem þar er til staðar, er í einhverjum mæli frábrugðin því sem á við um Danmörku, en ég verð hreinlega að játa að ég kann ekki nákvæmlega að gera tæknilegan greinarmun þar á.

Aðalálitamálið hefur verið hvort skattstofninn eða skattaandlagið ætti að vera sá hreini launagrunnur sem er hér og er, að ég best veit, líka í Danmörku eða að einhverju leyti blanda af launagreiðslum og hagnaði sem stundum hefur komið til tals. Hér er valin einföld og hrein leið sem skilar sambærilegum tekjum og á það við til dæmis í Danmörku.

Framkvæmdina í Frakklandi þekki ég minna en hef þó grun um að hún sé aftur eitthvað frábrugðin því sem Danir notast við. Þess ber auðvitað að geta að í tilviki Danmerkur er gildissvið þessarar skattlagningar nokkuð víðtækara en hér er farið út í, að svo stöddu að minnsta kosti. Danir ganga eitthvað lengra í því að leggja launasummuskatt sinn á starfsemi sem ekki ber virðisaukaskatt. Auðvitað geta menn velt því fyrir sér og skoðað hvort einhver afmörkuð svið eru í dag undanþegin virðisaukaskatti sem ættu jafnvel heima þarna, það gæti þess vegna verið í sjálfseignarstofnunum eða á sviðum sem eru í raun á samkeppnisrekstrarsviðinu en eru af sérstökum ástæðum undanþegnar virðisaukaskatti.

Að svo stöddu var ákveðið að halda sig við þennan geira og reyna að hafa málið eins einfalt og straumlínulagað (Forseti hringir.) og mögulegt væri og það er gert hér.