140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[13:42]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nei, ég á ekki við það. Ég held að það sé alveg augljóst að þar erum við komin út í allt aðra sálma, enda veit ég ekki betur en að þar sé virðisaukaskattur lagður á og að menn borgi þar sinn innskatt og útskatt og starfsemin, að öðru leyti en útflutningnum, er virðisaukaskattsskyld. Það eru frekar einhver afmörkuð svið starfsemi sem eru undanþegin virðisaukaskatti sem slík. Almennt er það velferðarþjónustan hér á landi og starfsemi hins opinbera á því sviði. En oft hefur verið kvartað undan því að rekstur í félögum og sjálfseignarstofnunum beri ekki virðisaukaskatt og mætti segja að það sé ósanngjarnt þegar hann hefur staðgöngu eða jafnvel beint samkeppnishlutverk við aðra starfsemi sem ber virðisaukaskatt.

Við þurfum ekki að flækja umræðurnar um það mál á þessu stigi, það eru ekki uppi slík áform í bili en ég taldi rétt að nefna það hér vegna þess að svona er þessu fyrirkomið (Gripið fram í.) að í Danmörku er gildissvið þessarar löggjafar talsvert víðtækara.

Það kemur reyndar sérstaklega fram í greinargerð með frumvarpinu, ef ég man rétt, ég hygg að eitthvað sé vikið að því þar. Það er þó alls ekki þannig að í Danmörku falli öll starfsemi sem undanþegin er virðisaukaskatti undir launasummuskattinn. Danir eru, alveg eins og við, áfram með ákveðin svið sem eru hvort tveggja í senn, undanþegin launasummuskattinum og virðisaukaskattinum, þannig að það eru engin hrein landamæri þarna. Hér er einfaldlega valin sú leið að taka fjármálastarfsemina, og því heitir þetta fjársýsluskattur, inn undir í þessari umferð.