140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[13:53]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um fjársýsluskatt. Hér er kynntur til sögunnar nýr skattur og er þar beitt nokkurri hugkvæmni. Í greinargerð er sagt, og í framsögu hæstv. ráðherra hér áðan kom fram, að þetta sé að erlendri fyrirmynd og að þetta virðist vera að þróast í þessa átt erlendis vegna þess að fjármálastofnanir greiða ekki virðisaukaskatt. Ástæðan fyrir því að fjármálastofnanir greiða ekki virðisaukaskatt er sú að fjármálaþjónusta, bæði gagnvart heimilum og fyrirtækjum, er slík að umfangi að virðisaukaskattsskyld fjármálaþjónusta yrði gríðarlega íþyngjandi. Þess vegna hefur verið farin sú leið að vera með fjármálaþjónustu utan skattkerfisins. Hins vegar hafa lönd eins og til dæmis Danmörk og Frakkland innleitt skatt á laun og hér er sagt að það sé fyrirmyndin að þessum skatti, en er það náttúrlega alls ekki eins og ég mun rekja hér.

Í fyrsta lagi er enginn annar launaskattur í Danmörku en þessi. Þar greiða menn 10,5% af launum fjármálaþjónustu sem ekki er virðisaukaskattsskyld. Hér er aftur á móti greiddur skattur af launum sem nemur núna 8,65% þannig að skattheimtan eftir fjársýsluskattinn sem hér er talað um verður 19,15% hjá fjármálafyrirtækjum á Íslandi á móti 10,5% í Danmörku.

Í öðru lagi er skattandlagið í Danmörku og Frakklandi nettólaun, þ.e. laun að frádregnum innskatti, virðisaukaskatti. Þannig að skattandlagið er mun lægra en nemur brúttólaunum. Hér er aftur á móti talað um brúttólaun og engin ákvæði eru um að hægt sé að draga frá innskatt.

Í þriðja lagi er danski skatturinn lagður á starfsemi allra fyrirtækja sem eru undanþegin virðisaukaskatti. Eins og hæstv. ráðherra talaði einmitt um áðan er margvísleg starfsemi í efnahagslífinu ekki virðisaukaskattsskyld. Við getum til dæmis nefnt útflutningsfyrirtækin. Álfyrirtækin borga ekki virðisaukaskatt og fá endurgreiddan innskattinn. Sjávarútvegur er sama marki brenndur og öll útflutningsstarfsemi yfirleitt. Hér er því gríðarlega mikill munur á og jafnræði á milli greina er truflað.

Í löndunum tveimur sem mér hefur orðið tíðrætt um gildir skatturinn einungis um þá starfsemi sem ekki er virðisaukaskattsskyld en skatturinn hér á Íslandi verður, öfugt við það sem er í Danmörku og Frakklandi, lagður á alla starfsemi fjármálafyrirtækja, allan launakostnaðinn. Hvaða starfsemi er það? Jú, það er öll ráðgjafarþjónusta, fyrirtækjaþjónusta sem bankarnir hafa með höndum, hún er virðisaukaskattsskyld, þar er innskattur og útskattur, en hér á að bæta enn við skatti, skatti á laun starfsmanna sem starfa í þessu.

Í viðskiptabönkunum er þetta kannski ekki stóra frágangssökin, en þetta truflar aftur á móti mjög starfsemi litlu fyrirtækjanna sem eru með mjög blandaða starfsemi og reka sig ekki á vaxtamun eins og viðskiptabankarnir heldur byggja reksturinn mikið á alls konar ráðgjafastarfsemi; hún er virðisaukaskattsskyld og síðan kemur fjársýsluskattur til viðbótar. Ef þessar tillögur eiga að verða að lögum þá ætti þetta auðvitað að vera þannig að skatturinn sé eingöngu lagður á þann hluta fjármálastarfsemi sem ekki er virðisaukaskattsskyld.

Þá sakna ég þess mjög í greinargerð með frumvarpinu að ekki er á neinn hátt talað um hvaða áhrif þetta hefur. Það er ljóst að þessir fjármunir verða ekki dregnir upp úr hatti, einhvers staðar frá þurfa þeir að koma. Þetta verður þá óneitanlega rekstrarkostnaður. Ef þetta verður að lögum og næsta mál á undan sem var kynnt hér, frumvarpsbandormurinn, verða óafkomutengd gjöld og skattar á fjármálafyrirtæki í kringum 18 milljarðar. Það þýðir að þrátt fyrir að fjármálafyrirtæki sé rekið með tapi, eða segjum bara fjármálageirinn í heild sinni, þarf það að bera þennan kostnað.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði áðan að sum þessara gjalda væru tímabundin, en þau eru ekki tímabundnari en svo að alltaf er verið að framlengja þau. Við sjáum nú til hversu tímabundin þessi gjöld verða. Það er eðli skatta að eftir að þeir eru komnir á virðist vera flókið að taka þá af.

Vaxtamunur á Íslandi í dag gæti verið 45–50 milljarðar sem ekki má rekja beint til þeirra lána sem eru í bankakerfinu vegna skilanefndanna. Þann kostnað sem ég nefndi hér, 18 milljarða, verður annaðhvort að taka af þeim vaxtamun eða hann leggst ofan á sem er mun líklegra. Vaxtamunurinn þarf því að aukast til að standa undir þessum kostnaði. Lauslegt mat bendir til þess að vaxtamunurinn þurfi að hækka um allt að 1/3 og þá fer vaxtamunurinn í bankakerfinu kannski úr 3% í 4%. Það er algjörlega ljóst að það hefur gríðarlega mikil áhrif í för með sér. Við sjáum til dæmis, miðað við skuldir heimilanna við bankakerfið, að þetta yrði aukinn kostnaður upp á um það bil 15 milljarða vegna aukins vaxtamunar á ári. Áhrifin á ríkissjóð gætu verið 5–6 milljarðar vegna aukins fjármagnskostnaðar. Hæstv. ráðherra sagði fyrr í dag að svo þyrfti ekki að vera vegna þess að ríkissjóður fjármagnaði sig ekki í bönkunum. En í fyrsta lagi leggst þessi skattur á alla fjármálaþjónustu, lífeyrissjóðina og annað slíkt og það sem meira er um vert og skiptir aðalmáli er að útlánsvextir á Íslandi eru mjög sambærilegir á milli aðila. Það stafar af samkeppnismálum. Ef bankakerfið mundi hækka vexti sína um 1% mundi það leiða í gegnum allt kerfið, sama hvort um er að ræða útlán lífeyrissjóða eða annað. Þannig að fjármögnunarkostnaður hins opinbera eða ríkissjóðs í íslenskum krónum mundi aukast um 5–6 milljarða. Það er ekki hægt að bera á móti því. Svona gerast kaupin á eyrinni.

Síðan eru það áhrif á fyrirtækin. Vaxtakostnaður þar eða fjármögnunarkostnaður gæti kannski hækkað um 10–15 milljarða líka. Þannig að með því að auka skatttekjur ríkissjóðs um 4,5 milljarða með þessum nýja fjársýsluskatti, gæti það orðið til þess, eins skrýtið og það nú er, að hækka fjármögnunarkostnað ríkisins um kannski 5–6 milljarða Það þýðir að tapið fyrir ríkissjóð af þessum nýja skatti gæti verið 500 millj. kr. til 1,5 milljarðar. Auðvitað eru þetta útreikningar sem gerðir eru hér í þingsal en ættu að koma fram í greinargerð með frumvarpinu en eins og svo oft áður er kostnaðarmatið ákaflega óburðugt og illa gerð grein fyrir áhrifunum.

Þá eru það lífeyrissjóðirnir. Landssamtök lífeyrissjóða hafa látið reikna út hver áhrifin gætu orðið á lífeyrisréttindi. Mat tryggingafræðinga er að skerðingin á réttindum sjóðfélaga, miðað við tíu ár, gæti numið allt að 1% vegna þessa. Á móti koma auknar tekjur vegna hærri vaxta eins og ég rakti áðan þannig að nettóáhrifin eru enn óviss. Landssamtökin fóru ekki út í að reikna það þannig að það væri verðugt verkefni fyrir fjármálaráðuneytið að slá á hvað þetta gæti orðið.

Ef maður lítur yfir fjármálakerfið í heild sinni er verið að hækka beinu launaskattana úr 8,65% í 19,15%. Ofan á það leggst síðan þátttaka þess í lífeyrissjóðsgreiðslum þannig að launatengdu gjöldin á Íslandi eru að fara úr því að vera hófleg, eins og þau hafa verið miðað við önnur lönd, í vægast sagt óhófleg. Launatengdu gjöldin gætu kannski farið upp í 35%, eitthvað svoleiðis, þegar allt er talið, lífeyrissjóðsgreiðslur og slíkt.

Ljóst er að þetta mun leiða til þess, og er alveg hárrétt hjá hæstv. ráðherra, að minna vinnuafl verður notað í fjármálageiranum og þar mun því fækka störfum auk þess sem nýráðningar í framtíðinni verða fátíðari vegna þess að kostnaður við ráðningar verður mun meiri en hann hefur verið. Ég er ekki alveg viss um að ætlunin með þessu frumvarpi hafi verið að knýja fram fækkun starfa í fjármálageiranum og að fjármálageirinn vaxi ekki að mannafla í framtíðinni.

Hv. þm. Pétur Blöndal fór jafnframt inn á hinn augljósa hlut að þetta verður mikill hvati fyrir þann sem rekur fjármálafyrirtæki til að útvista starfsemi þess. Bókhald til dæmis, af hverju ekki að útvista bókhaldi til Bangalore til dæmis? Af hverju ættum við ekki að reyna að hluta starfsemi fjármálakerfisins sem mest í sundur og fara með hana í sem mestum mæli til landa þar sem ekki er slík skattlagning og ekki þessi hvati til að vera með lítið af starfsfólki?

Virðulegi forseti. Tími minn er að verða búinn, en auðvitað er þetta aðeins 1. umr. Ég á eflaust eftir að koma auga á fleiri galla á frumvarpinu og benda á þá á síðari stigum og það mun eflaust rata inn í greinargerð með frumvarpinu. Ég gef því í heildareinkunn, (Forseti hringir.) á skalanum 1–10, svona 3,5.