140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[14:13]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það virðist stefna í að þetta verði mjög áhugavert mál fyrir efnahags- og skattanefnd. Mig langar að spyrja hv. þm. Pétur Blöndal hvort hann telji að þess háttar skattur eins og hér er lagður til, fjársýsluskatturinn, geti að einhverju leyti komið í veg fyrir öran vöxt fjármálafyrirtækja. Svo hefur verið talið eins og við sáum á því hvernig bankarnir margfölduðu stærð sína árlega frá árinu 2002 til ársins 2008 þegar þeir fóru svo í þrot ásamt nánast öllu íslenska ríkinu. Síðan hefur líka komið fram og það var meðal annars rætt á ráðstefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Seðlabankans og Stjórnarráðsins í Hörpu þar sem þeir bentu á — ég heyrði það í ræðu hv. þingmanns að hann hafði töluverðar áhyggjur af því að fjármálafyrirtæki þyrftu að einhverju leyti að fara að segja upp fólki með álagningu þessa skatts. Þar var bent á að þar sem hér var greinilega margs konar bóla hafi fjármálageirinn dregið til sín besta fólkið, fólkið með bestu menntunina, bestu getuna, mestu hæfnina. Spurningin er hvort þetta fólk nýtist samfélaginu eins og er best innan bankageirans eða hvort það gæti jafnvel skilað meira til samfélagsins í öðrum störfum og öðrum atvinnugreinum.