140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[14:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrri spurningin er hvort þetta hefði komið í veg fyrir öran vöxt. Það held ég ekki. Þá var svo mikið í húfi og stórar tölur sem menn léku sér með sem stafa aðallega af krosseignarhaldi, raðeignarhaldi og slíku sem ég hef margoft bent á. Ég held að skattur á laun hefði ekki skipt neinu stóru máli þótt launin hafi verið há, en það hefði eflaust getað gefið ríkissjóði ágætar tekjur á þeim tíma.

Varðandi það hvort þessi skattur hindri að í bönkunum bindist hæfileikaríkt fólk sem ætti erindi annars staðar er ég ekki viss um að starfsmenn bankanna eigi auðvelt með að fá vinnu í stjórnsýslunni eða annars staðar eins og staðan er núna. Það eru allir að skera niður. Ég held að þeir fari frekar til útlanda ef eitthvað er. Það hefur reyndar verið niðurstaðan að mjög margir sem hafa hætt í bönkunum hafa farið til starfa til útlanda. Þá borgar það fólk að sjálfsögðu enga skatta á Íslandi þannig að áhrif þessa skatts geta orðið þau að það verði aukning á brottflutningi fólks, minni skatttekjur ríkissjóðs á öðrum sviðum, t.d. tekjuskattur og virðisaukaskattur, og það er nokkuð sem nefndin þarf að skoða. Svo þarf hún sérstaklega að skoða það sem nefnt var, hvort þessi skattur sé sambærilegur við það sem er til dæmis í Danmörku. Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson fór einmitt mjög nákvæmlega í gegnum að það væri ekki sambærilegt, sérstaklega þegar menn hafa í huga að skattur á tekjur á Íslandi í bankakerfinu fer að nálgast 20% sem er ekki sambærilegt við það sem er víða annars staðar. Það þarf að skoða þetta til þess að við fáum ekki á okkur einhverjar skaðabótakröfur vegna þess að ríkið skattleggi bankana of mikið. Ég held að þetta hafi ekki þau áhrif að þetta ágæta fólk fari að starfa (Forseti hringir.) annars staðar hér á landi.