140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[14:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Áhættumat á bönkunum væri mjög áhugavert. Ég legg nú til að hv. nefnd taki til skoðunar hvernig hægt sé að láta menn borga fyrir áhættuna. Nú hefur því verið lýst yfir að innstæður séu tryggar, en það er ekki ríkisábyrgð á innstæðum. Það er rétt að undirstrika það. Þá er það spurningin: Er það einhver áhætta fyrir íslenska skattgreiðendur að bankarnir fari á hausinn? Innstæðutryggingarsjóðurinn er tómur og sparifjáreigendur verða bara að bíta í það súra. Spurningin er hvort taka ætti upp ríkisábyrgðargjald á innstæður sem gætu verið auglýstar sem innstæður með ríkisábyrgð þannig að bankarnir gætu verið með tvenns konar innstæður, annars vegar ótryggðar innstæður og hins vegar innstæður með ríkisábyrgð þar sem bankarnir mundu borga fyrir ríkisábyrgðina eins og áhættan gefur til kynna. Það geta verið nokkuð háar prósentur vegna þess að áhættan er mikil og sérstaklega í stofnunum sem ekki eru mjög sterkar. Ég held að menn mundu miklu frekar mæta áhættunni þar. Áhætta ríkisins af bönkunum er annars eiginlega engin nema vegna stærðar þeirra í efnahagskerfinu ef þeir bera ekki ábyrgð á innstæðunum. Ef banki fellur er það bara biti þeirra hluthafa nema að því er varðar innstæðurnar. Ég held að það sé alveg rétt að koma því á hreint hvaða innstæður eru ekki með ríkisábyrgð og það ætti þá að vera komið með kerfi sem væri þannig að menn borguðu fyrir ríkisábyrgð á innstæðunum, það yrði bara auglýst sem slíkt og kæmi þá niður á vöxtum af þeim innstæðum sem gætu væntanlega verið til lengri tíma en í dag. Sparifjáreigendur treysta nefnilega ekki bönkunum.