140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[14:21]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að halda hér langa ræðu um þetta frumvarp við þessa umræðu. Hér er um að ræða einn liðinn í því sem kallað er tekjuöflunaráform ríkissjóðs við gerð fjárlaga fyrir árið 2012. En um leið er, eins og kom fram í ræðu hæstv. fjármálaráðherra, um að ræða skatt sem mér heyrist á ummælum hans að hann sjái fyrir sér að sé varanlegur eða að minnsta kosti til lengri tíma. Hitt er annað mál að ég held að enginn vafi leiki á því að ástæða þess að farið er út í þennan frumvarpsflutning núna sé viðleitni til að bæta tekjustöðu ríkissjóðs vegna fjárhags og fjármála næsta árs fyrst og fremst, það hefur kannski rekið menn í það að koma fram með þetta frumvarp, hugsanlega án þess að nægilega vel hafi verið hugað að útfærslunni og öðrum slíkum þáttum.

Nú er um það að ræða að þessi skattur er svolítið sérstakur. Ég ætla ekki að blanda mér í deilur um það hvort hér sé farið að fyrirmynd annars staðar frá eða ekki. Ég hef hlustað á það sem hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt um það og eins hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson. Ég þykist vita að hv. efnahags- og skattanefnd muni einmitt fara vel yfir það í störfum sínum að hvaða leyti hér er byggt á erlendum fyrirmyndum og að hvaða leyti hér er um heimasmíðaðar reglur að ræða.

Það sem ég hef kannski meiri áhuga á að ræða við þessar aðstæður er það fyrst og fremst hvaða áhrif skattlagning af þessu tagi hefur. Þá horfum við helst á það að skattstofninn eru launagreiðslur fjármálafyrirtækja, þ.e. ofan á laun, hverju nafni sem þau nefnast, á að bæta við 10,5% sem liggur í augum uppi að hefur veruleg áhrif á launakostnað og starfsmannakostnað fyrirtækja í fjármálaþjónustu. Við getum haft alls konar skoðanir á því, og ýmsir hafa alls konar skoðanir á því, hvort starfsmenn sem vinna við fjármálaþjónustu á Íslandi séu of margir eða of fáir. Spurningin er hins vegar sú hvort þetta er rétta leiðin til að kalla á þá hagræðingu. Spurningin er sú hvort ekki væri æskilegra að slík hagræðing skilaði sér þá í minni vaxtamun til viðskiptavina frekar en að hún fari í þetta. Það er auðvitað hlutur sem þarf að meta líka.

Mér sýnist að fjármálaráðuneytið hafi farið frekar létt frá því að reyna að átta sig á áhrifunum í þessu tilliti. Áhrifin eru augljóslega þau, eins og ég segi, að launakostnaður, kostnaður fjármálafyrirtækja við það að vera með fólk í vinnu, eykst. Það hefur ekki bara áhrif í þá átt, eins og reyndar er getið um á bls. 9 í greinargerð með frumvarpinu „að draga úr launahækkunum og halda aftur af nýráðningum“ — Þetta er það sem segir um þessi áhrif í greinargerð með frumvarpinu. — Það hefur líka þau áhrif á stöðuna eins og hún er í dag að fjármálafyrirtæki hljóta, þegar þau horfa til hagræðingar, að horfa ekki síst á starfsmannaþáttinn og fækka starfsmönnum. Ég held að það sé óhjákvæmilegt og hefði kannski verið betra ef fjármálaráðuneytið hefði lagt aðeins meiri vinnu í að reyna að átta sig á líklegum áhrifum að því leyti.

Þetta segi ég vegna þess að það sem slær mig fyrst og fremst í sambandi við frumvarpið er það hver skattstofninn er, að skattstofninn skuli vera launin. Það slær mig einkennilega í þessu tilliti. Ekki er verið að skattleggja hagnað, það er verið að auka við rekstrarkostnaðinn og starfsmannakostnaðinn með þessum hætti. Ég held að hv. efnahags- og skattanefnd hljóti að velta því fyrir sér, ef á annað borð þykir ástæða til að auka skattlagningu á fjármálafyrirtæki sérstaklega, hvort þetta sé rétta leiðin.

Ég minni á að á síðasta ári var tekinn upp annars konar skattur, sérskattur á fjármálaþjónustu. Eitthvað er nú verið að hækka hann líka núna. Þar er viðmiðunin allt önnur. Nú hef ég ekki þekkingu til að meta hvort sú viðmiðun sem þar liggur til grundvallar, sem er ákveðið hlutfall af skuldum fjármálafyrirtækja, er betri viðmiðun. Það slær mig hins vegar að það sé óeðlilegt að fara í rekstrarkostnaðinn með þessum hætti og auka við hann á þennan veg. Það slær mig þannig svona við fyrstu sýn að eðlilegra hefði verið að horfa til hagnaðar. Ef menn hafa áhyggjur af miklum hagnaði í fjármálaþjónustu, af hverju er þá hagnaðurinn ekki skattlagður? Af hverju leggja menn meiri byrðar ofan á laun starfsmannanna? Það slær mig sérkennilega.

Auðvitað er það þannig með þennan skatt eins og marga aðra skatta sem leggjast á atvinnustarfsemi af ýmsu tagi að hætt er við að það leiði til þess að skattinum verði velt á viðskiptamennina með einhverjum hætti, ekki endilega öllum þegar í stað heldur geti það haft áhrif til lengri tíma, að það verði á endanum viðskiptamenn fjármálafyrirtækja, hvort sem um er að ræða lántakendur eða aðra þá sem í viðskiptum við þá eiga, sem bera þennan kostnað. Einhvers staðar koma þessir peningar frá. Það er alveg viðbúið að þetta geti leitt, eins og nefnt hefur verið í þessari umræðu, til þess að það auki eða alla vega haldi uppi vaxtamuninum hjá fjármálafyrirtækjum. Þetta eru allt saman þættir sem mér finnst fjármálaráðuneytið kannski hafa skautað svolítið létt yfir í sambandi við mat á áhrifum þessarar skattlagningar. Matið miðað við greinargerðina byggist fyrst og fremst á því að áætla hvað þetta muni skila mörgum krónum í ríkissjóð, en miklu minna er spáð í það hvaða áhrif þetta komi til með að hafa á greinina og hvaða áhrif þetta komi til með að hafa inn í efnahagslífið almennt.

Þetta er auðvitað ein af fjölmörgum aðgerðum núverandi ríkisstjórnar í skattamálum sem eru flestar þess eðlis, ekki allar, að auka álögurnar. Það ber að skoða þær tillögur sem við erum að ræða hér í dag í samhengi við það að þær eru til viðbótar skattahækkunum sem átt hafa sér stað á undanförnum tveimur, tveimur og hálfu ári. Það er auðvitað líka þáttur sem hv. efnahags- og skattanefnd þarf að hafa í huga.

Nú er það þannig að bankastarfsemi og önnur fjármálastarfsemi er ekki vinsælasta atvinnugreinin í því þjóðfélagsástandi sem við búum við í dag hér á landi og raunar ekki annars staðar heldur. Við getum verið þeirrar skoðunar að þeir sem réðu ferðinni varðandi fjármálaþjónustu á undanförnum árum hafi oft hegðað sér óskynsamlega og misstigið sig. Ég vara hins vegar við því að við látum einhverjar slíkar tilfinningar ráða ferðinni þegar við veltum fyrir okkur starfsumhverfi og þar á meðal skattlagningu á fjármálastarfsemi í dag og til framtíðar. Við eigum ekki að samþykkja skattahækkanir á atvinnulífið til að refsa bönkunum eins og þeir voru fyrir 2008. Það er ekki góð forsenda ákvarðana í skattamálum að af því að bankarnir hegðuðu sér gáleysislega fram eftir ári 2008 þá eigi að beita þá einhverjum viðurlögum núna. Mér finnst það ekki góð röksemd.

Það sem við þurfum hins vegar að skoða er það hvaða skattlagning og hvaða form skattlagningar er eðlilegt til að þessi starfsemi geti blómstrað. Þetta er mikilvæg starfsemi sem þarf að vera fyrir hendi og hún þarf að geta blómstrað. Við þurfum að byggja upp fjármálastarfsemi að nýju eftir hrun á nýjum forsendum, en við þurfum að velta fyrir okkur: Er skattlagning eins og felst í þessu frumvarpi leiðin til þess?