140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[14:40]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Eygló Harðardóttir varpar fram ýmsum áhugaverðum spurningum sem ég treysti mér ekki til að svara við þessar aðstæður. Það sem við hv. þingmaður erum þó líklega sammála um er að það þurfi að skoða þessi mál í ákveðnu samhengi. Það þarf að velta fyrir sér samspili ákvarðana ríkisins varðandi starfsumhverfi, innstæðutryggingar, skatta og annað þess háttar. Það þarf að skoða þetta í samhengi, það er ekki hægt að horfa bara á hlutina í afmörkuðum bútum eins og kannski er gert í þessu frumvarpi. Þetta frumvarp ber það með sér að þegar fjármálaráðuneytið fór að huga að því hvernig ætti að bæta tekjur ríkissjóðs fyrir næsta ár varð einhver leið fyrir valinu. Ég hef áhyggjur af því að þessi leið verði farin núna án þess að hún verði skoðuð í samhengi við aðra þætti sem hv. þingmaður hefur nefnt, t.d. innstæðutryggingarnar.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur í þessu sambandi nefnt möguleika á ríkisábyrgðargjaldi eða einhverju slíku. Menn þyrftu að skoða þetta í víðara samhengi en nú er gert. Nú vakir einfaldlega fyrir mönnum að ná í peninga í ríkissjóð. Ég held að við getum bara verið nokkuð skýrmælt um að það er meginforsendan fyrir því að farið er út í þessa skattlagningu. Ég er ekki viss um að hæstv. fjármálaráðherra mótmæli því á eftir, það er verið að reyna að skrapa saman einhverjum peningum. Fjármálaráðuneytið hefur metið það svo að þarna væri einhvern pening að fá, svo eftir á er valið form á skattlagningunni. Þá kannski horfa menn til Danmerkur eða eitthvað annað og velja sér fyrirmynd (Forseti hringir.) til að ná þessum tekjum.