140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[14:52]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nú taka undir það að við ættum kannski ekki að horfa of mikið á það hvernig hlutirnir eru í Danmörku eða í nágrannalöndum okkar, sérstaklega í ljósi þess að ég hef nú alloft rekið mig á það í greinargerðum eða athugasemdum sem fylgja lagafrumvörpum er fullyrt að hlutirnir séu með ákveðnum hætti, svo þegar maður sjálfur fer í frumtextann, því eins og hæstv. forseti veit geta ýmsir þingmenn lesið útlensku, hafa þeir ekki alveg reynst vera eins og fullyrt er í þeim greinargerðum.

Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra um skoðun hans á þeirri umræðu sem farið hefur fram, um hvort frekar eigi að leggja skatt á hagnað fjármálafyrirtækja. Ég hef ekki síst áhuga á að heyra hvort hæstv. fjármálaráðherra hefur upplýsingar um það hvort fjármálafyrirtækin séu búin að nýta það svigrúm sem þau fengu þegar þau voru stofnuð varðandi afskriftir eða niðurfærslu lána. Ef svo er ekki spyr ég hvort ekki sé eðlilegt að þau skili þá þeim hagnaði, sem ég held að meginþorri íslensks almennings telji vera mjög óeðlilegan, sem þau hafa verið að færa fram í bókum sínum.

Ég vil líka spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvaða skoðun hann hefur á þessum áhættustuðli sem ég hef aðeins komið inn á í andsvörum við hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins.