140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[14:54]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það fer svolítið eftir því hvað maður er að nálgast þegar maður svarar þeirri spurningu. Ætti frekar að fara þá leið að leggja þá eitthvað sem hlyti að vera einhvers konar aukatekjuskattur, einhver sérstakur skattur, á hagnað banka eða fjármálafyrirtækja sem slíkra því að þau greiða auðvitað sinn almenna tekjuskatta eins og allir aðrir. Ég hallast nú að því að það sé almennt heppilegra að við höfum sömu tekjuskattsprósentu á allt atvinnulíf og reynum að gæta jafnræðis þar. En ef svo ber undir að menn telja að rök séu fyrir ólíkri skattalegri meðferð eins og hefur nú heldur betur verið í þessu tilviki, því að þessi starfsemi hefur ekki borið virðisaukaskatt á sama tíma og önnur innlend starfsemi gerir það, að fara þá sértækari leiðir í þeim efnum eins og hér er til dæmis verið að gera tillögu um. Því það að fara í mismunandi útfærslur í tekjuskatti, annaðhvort með ólíkum prósentum eða þá að hafa frádráttar- og fyrningar- og afskriftareglur og annað því um líkt ólíkt til að ná inn einhverjum breiðari skattstofni, það er önnur nálgun sem er ekki vandalaus heldur.

Ég eins og allir aðrir heyri auðvitað þá umræðu sem er og sé þær tölur sem birtast um afkomu bankanna. Fólk spyr sig auðvitað: Er ekki eðlilegt að þeir leggi þá meira af mörkum? Hér er þá ákveðið svar við því.

Varðandi áhættustuðul og hvernig eigi að stýra því að skattleggja áhættusækni og/eða láta menn borga meira í innstæðutryggingar eftir því sem starfsemin sem á bak við liggur er áhættusamari, þá er, held ég, rétt að fara í það mál þeim megin frá ef menn ganga ekki alla leið og reyna að aðskilja bara í lögum, einhvers konar nýjum Glass-Steagall lögum, meiri aðskilnað hefðbundinnar og tryggari almennrar bankastarfsemi og fjárfestingar- og áhættubankastarfsemi. Þá gæti innheimta tryggingarsjóðsgjalds, sem væri með áhættustuðlum, (Forseti hringir.) að einhverju leyti mætt þessum sjónarmiðum þannig að hin áhættusama starfsemi væri þannig (Forseti hringir.) dýrari.