140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[14:56]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort ég skil það rétt að hæstv. fjármálaráðherra hafi verið að tala gegn auðlindagjaldi í sjávarútvegi. Ef honum fellur illa að tala um skattlagningu á hagnað fyrirtækja sem tekjuskatt, getum við alveg kalla það auðlindagjald líka í bankageiranum, ef það hentar betur.

Það sem virkar svolítið óþægilegt hvað varðar þennan skatt, og ég held að hv. þingmenn hafi verið að benda á það hér, er að hann mun fyrst og fremst bitna á starfsfólki og viðskiptavinum. Þetta verður þá tekið út í auknum vaxtamun og í því að fyrirtækin fækki fólki í staðinn fyrir að það leggist á eigendur fjármálafyrirtækjanna ef verið er að skattleggja hagnaðinn.

Varðandi umræðuna og svör hæstv. fjármálaráðherra um áhættu og áhættustuðul er mjög mikilvægt að mjög vandlega sé farið í það hvernig við metum áhættu. Fjármálaeftirlitið fór til dæmis í að meta áhættu varðandi þennan áhættustuðul um innstæðutryggingar og var ég mjög ósátt við það mat. Svo virtist sem þau fjármálafyrirtæki sem eru fyrst og fremst í viðskiptabankastarfsemi, eru fyrst og fremst að fjármagna sig innan lands með innstæðum, og eru fyrst og fremst að veita góða þjónustu, fengu það ekki metið í lægri áhættustuðli. Þannig skiptir, held ég, mjög miklu máli hvernig svona áhættustuðull er byggður upp. Þannig að eins og má heyra er ég ekki fyllilega sátt við svör hæstv. fjármálaráðherra.