140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[14:58]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Það er algjör misskilningur að lesa megi það út úr orðum mínum að ég sé andvígur auðlindaskattlagningu. Ég nálgast þetta hins vegar þannig að þegar sérstakar ástæður eru fyrir því að einhver atvinnugrein eða rekstur sæti sérstakri skattalegri meðferð, eins og klárlega á við þegar menn eru að reyna að ná auðlindarentu sem myndar umframhagnað í atvinnurekstri af því að menn fá endurgjaldslaust eða endurgjaldslítið aðgang að verðmætri auðlind, (Gripið fram í.) þá er ekki óeðlilegt að horft sé til þess með sérstakri skattlagningu, sem reynir að ná utan um þann viðbótararð sem sprettur af auðlindanýtingunni, auðlindarentunni eins og það er kallað. Síðan greiða þau fyrirtæki eins og önnur tekjuskatt af hagnaði sínum þegar hann verður til. Þannig held ég sé betra að nálgast þetta heldur en ef við værum bara beint með ólíkar tekjuskattsprósentur sem væru þá einhver ágiskun á það hvað væri á bak við í formi auðlindarentu eða annarra hluta.

Hér er andlagið klárlega það að við erum að setja þennan fjársýsluskatt á fjármálastarfsemi sem ekki greiðir virðisaukaskatt. Það er meginútgangspunkturinn hér og það eru fullgild rök fyrir því. Það er ekkert að því í sjálfu sér. Og hvers vegna skyldi þessi starfsemi ekki bara rétt eins og önnur skila einhvers konar ígildi virðisaukaskatts í ríkissjóð? Þetta er sala á þjónustu eins og er virðisaukaskattsskyld út um allt skattkerfið meira og minna og ekkert að því. Hins vegar hafa menn af skiljanlegum ástæðum séð að betra er að fara aðrar leiðir til að ná ígildi þeirra fjármuna frekar en gera alla fjármálaþjónustuna í sinni flóknu mynd virðisaukaskattsskylda. Þar erum við sammála, ég og hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson, sem kom inn á þetta mál í dag.

Þannig að ég held að einhver aðferð af þessu tagi sé nærtækari og einfaldasti (Forseti hringir.) og straumlínulagaðasti skattstofninn og innheimtan á skattinum er sú sem hér er lögð til, (Forseti hringir.) því verður ekki á móti mælt.