140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

upptaka Tobin-skatts.

119. mál
[16:58]
Horfa

Flm. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um upptöku Tobin-skatts. Flutningsmaður er sú sem hér stendur.

Tillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir því á alþjóðavettvangi að komið verði á viðræðum til að undirbúa upptöku svonefnds Tobin-skatts á fjármagnsflutninga milli landa. Þá fari fram á því markviss athugun hvort Íslendingar ættu að setja skatt á gjaldeyrisviðskipti af stærðargráðu sem einhverju nemur, óháð því sem gerist á erlendri grundu, til þess að verja samfélagið fyrir óábyrgri spákaupmennslu með gjaldmiðil þjóðarinnar.“

Í greinargerð kemur fram að hugmyndin um alþjóðlegan skatt á fjármagnsflutninga milli landa hafi verið sett fram í byrjun áttunda áratugarins af nóbelsverðlaunahafanum James Tobin, prófessor í hagfræði við Yale-háskóla í Bandaríkjunum. Upphaflega markmiðið með slíkum skatti var að renna stoðum undir sjálfstæða efnahagsstefnu ríkja heims og draga úr gengissveiflum einstakra gjaldmiðla. Á síðari árum hefur Tobin-skatturinn einnig verið nefndur sem leið til að verja gjaldmiðla fyrir árásum spákaupmanna og til að fjármagna aðkallandi alþjóðaverkefni. Í stuttu máli má segja að útgangspunkturinn með slíkri skattheimtu sé að treysta efnahagslegt öryggi hvarvetna í heiminum.

Íslendingar fengu að kynnast afleiðingum spákaupmennsku af þessu tagi og átti spákaupmennska með gjaldeyri án efa þátt í fjármálahruninu undir lok fyrsta áratugar nýrrar aldar. Í aðdraganda hrunsins hafði heildarvelta viðskipta með gjaldeyri aukist hröðum skrefum.

Íslendingar voru nánast varnarlausir hvað þetta varðar og var sú hávaxtastefna sem Seðlabanki Íslands kynti undir sem olía á eld enda markmið að draga erlent fjármagn inn í íslenskt fjármálakerfi þar sem boðið var upp á kostakjör eins og það hét. Á sama tíma urðu veruleg brögð að því að fjármálamenn og fjármálastofnanir reyndu að rétta sinn hlut í rekstri kerfisins með því að skjóta háum upphæðum inn og út úr landinu eftir því sem vindar blésu á fjármálamarkaði með það að markmiði að hafa hagnað af braski með gjaldeyri þjóðarinnar.

Nú um stundir búa Íslendingar við gjaldeyrishöft og það er mikilvægt að búa svo um hnúta áður en þeim er aflétt að þjóðin verði ekki aftur spákaupmennsku að bráð. Fyrirbyggjandi aðgerð væri án efa skattlagning á fjármagnsflutninga af því tagi sem James Tobin lagði til á sínum tíma og hefur síðan verið kennd við nafn hans.

Segja má að áhugi á hugmynd James Tobins hafi vaxið mjög eftir fjármálakreppuna í Suðaustur-Asíu haustið 1997. Þá átti spákaupmennska drjúgan þátt í því að gjaldmiðlar Malasíu, Filippseyja og Indónesíu hrundu en kreppan teygði anga sína mun víðar, þar á meðal til Taílands, Suður-Kóreu og Japans. Í framhaldinu neyddust mörg ríkjanna til að taka gríðarlega fjármuni að láni til að fleyta sér yfir erfiðustu hjallana.

Í umræðu um Tobin-skatt hefur verið miðað við 0,1–0,25% skatt. Sumir hafa reyndar miðað við 0,1–1% skatt en flestir sem um þetta ræða eru á því að hann eigi að vera mjög lágur, eða á bilinu 0,1–0,25%, en það fer eftir því hversu há upphæðin er í hverju tilviki. Erfitt er að gera sér grein fyrir því hve mikill afraksturinn af slíkri skattlagningu yrði á heimsvísu en hann mundi án vafa nema að minnsta kosti tugum milljarða króna á ári. Svo lág skattprósenta sem gert er ráð fyrir mundi engu að síður tryggja að skatturinn hefði ekki áhrif á langtímafjárfestingar en hamlaði gegn spákaupmennsku. Höfuðstóll spákaupmanna mundi rýrna hratt við að vera fluttur oft á dag og skattlagður í hvert skipti.

Um síðustu aldamót höfðu bæði kanadíska þingið og ríkisstjórn Finnlands lýst yfir stuðningi sínum við hugmynd að Tobin-skatti. Einnig hefur Tobin-skatturinn komið til umræðu á löggjafarþingum Bretlands, Frakklands og Bandaríkjanna, svo dæmi séu tekin. Einnig innan Evrópusambandsins og að nokkru leyti hefur hann verið tekinn upp hjá tilteknum stofnunum innan Bretlands. Allra síðustu ár hefur minna verið rætt um Tobin-skatt en í ljósi hræringa í alþjóðafjármálakerfinu er hann nú að komast á dagskrá að nýju. Hvað sem því líður er mikilvægt að Íslendingar, sem brenndir eru mjög af spákaupmennsku í gjaldeyrisviðskiptum og ætti að vera umhugað að leggja sitt af mörkum til fyrirbyggjandi ráðstafana, standi í framvarðasveit við að setja þetta mál að nýju á dagskrá.

Það skal tekið fram að þegar skattlagning af þessu tagi er annars vegar er að ýmsu að hyggja. Ýmsum spurningum hefur ekki verið endanlega svarað, m.a. um hvernig innheimta beri skattinn, hver eigi að vera vörsluaðili teknanna og hversu langt sé hægt að ganga í samræmingu laga og reglna um slíkan skatt án þess að ganga á fullveldi ríkja. Flestir eru hins vegar sammála um að Tobin-skatturinn verði allra helst að vera lagður á með alþjóðlegri samstöðu. Ef ríki neita að leggja á slíkan skatt telja ýmsir að gjaldeyrisverslunin mundi flytjast þangað. Þetta eru þó aðeins getgátur og ýmislegt hefur verið um þetta rætt og ritað af mörgum málsmetandi hagfræðingum. Hvað ráðstöfun teknanna af slíkum skatti snertir hafa verið nefndir til sögunnar málaflokkar á borð við hungur, ólæsi, hreinsun jarðsprengjusvæða, friðargæslu og brýn verkefni í umhverfismálum.

Ljóst er af framansögðu að nauðsynlegt er að fulltrúar allra ríkja heims komi saman til að ræða málið enda snertir það alla jarðarbúa með einum eða öðrum hætti. Og eins og ég hef nefnt að framan er nú þegar verið að ræða þetta upp að vissu marki á mismunandi stöðum á alþjóðavísu. Því er hér skorað á ríkisstjórn Íslands að beita sér áframhaldandi fyrir upptöku málsins á alþjóðavettvangi og hjálpa til við að því verði haldið áfram á þeim stöðum þar sem það hefur þegar verið tekið upp.

Jafnframt þyrfti að íhuga hvort Íslendingar ættu að setja skatt á gjaldeyrisviðskipti af stærðargráðu sem einhverju nemur óháð því sem gerist á erlendri grundu til þess að verja samfélagið fyrir óábyrgri spákaupmennslu með gjaldmiðil þjóðarinnar.

Tobin-skatti hefur áður verið hreyft í umræðum á Alþingi og flutti Ögmundur Jónasson þingsályktunartillögu þess efnis að hefja undirbúning upptöku Tobin-skatts á fjármagnsflutninga milli landa haustið 2000 á 126. löggjafarþingi. Illu heilli var tillagan ekki samþykkt þá, en eins og málsmetandi hagfræðingur sagði við mig um daginn: Mikið hefði verið gott núna ef við hefðum búið við Tobin-skatt.

Eins og ég sagði áðan hafa margir málsmetandi alþjóðlegir hagfræðingar rætt þessi mál af visku og þekkingu. Þar af ýmsum ber til dæmis að nefna mann sem mig langar nánast til að kalla Íslandsvin, a.m.k. hefur hann sýnt málefnum Íslands áhuga og komið hér til að ræða efnahagsmál, en það er nóbelsverðlaunahafinn Joseph Stieglitz. Hann sagði einmitt árið 2009 að nútímatækni gerði skatt í þessum anda enn skynsamlegri og raunhæfari nú á tímum en fyrir 40 árum þegar Tobin lagði hann fyrst til.

Frú forseti. Ég vona að þetta mál verði kannað af alvöru og tekið fyrir í hv. efnahags- og skattanefnd og fái þar farsæla meðferð. Hér er sannarlega um brýnt mál fyrir Ísland að ræða, leyfi ég mér að segja, og er liður í því að böndum sé komið af einhverri alvöru á þá spákaupmennsku sem kom ekki aðeins Íslandi á þann slæma stað sem raun ber vitni heldur á alþjóðlega vísu, eins og reyndar sést einmitt á því hversu margir málsmetandi menn, hagfræðingar og aðrir sem til þessara mála þekkja, hafa verið að fjalla um þessi málefni á alþjóðavettvangi.

Ég lýk hér máli mínu, frú forseti, og vonast eftir farsælli meðferð þessa máls.