140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

samanburðarrannsókn á túlkun reglna EES-samningsins.

94. mál
[17:53]
Horfa

Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. ESA, Eftirlitsstofnun EFTA er sjálfstæð stofnun innan þess ljónagarðs sem hún tilheyrir og hún verður að fjármagna sig sjálf. Hún fær ákveðna peninga til að rannsaka það sem henni sýnist og það sem gaukað er að henni ugglaust af stjórnvöldum ákveðinna landa sem ráða ferð. Og ef eitthvað fer úrskeiðis hjá þeim, ef þeir gera mistök eða kostnaðurinn verður of mikill í ákveðnum þáttum, bitnar það á réttlætinu í matsafgreiðslu ESA, og við Íslendingar höfum ekki farið varhluta af því. Þá er annaðhvort verið að segja upp einhverjum tugum starfsmanna meðan þeir rétta úr kútnum eða sekta lönd til að afla sér fjár svo að þeir geti haldið áfram hinum grófu og yfirgangssömu vinnubrögðum sem þeir eru þekktir fyrir að stunda.

Þetta er fyrirkomulag sem þekkist ekki einu sinni í villtustu Afríkuríkjum. Þar er siðferðið á hærri grundvelli en þetta og er þar þó fólk sem við Evrópubúar tölum oft um sem manneskjur á mörkum. En þar er virðingin fyrir brjóstvitinu meiri og þar eru leikreglurnar markvissari þótt síður en svo sé hægt að hrósa ýmsum leikreglum af þeim vettvangi. En það réttlætir ekki yfirgang ESA.

Við höfum margreynt það og það hefur sýnt sig um langt árabil, samkvæmt leikreglum Evrópubandalagsins og þeim samningi sem við erum í tengslum við á grundvelli ESA, Evrópska efnahagssvæðisins, að það er mjög mikil mismunun í túlkun reglna eftir löndum. Það er til dæmis þekkt að Spánverjar túlka þessar reglur mjög opinskátt og sér í hag. Sama gera ýmsar aðrar Evrópubandalagsþjóðir og svigrúm er til þess í þessum reglum og samningum að túlka reglurnar með sérstökum hætti ef menn sýna fram á sérstöðu í því landi sem um er að ræða. Ekki er vitað um eitt einasta dæmi, virðulegi forseti, þar sem Íslendingar sjálfir, hvað þá kerfisþrælarnir hjá ESA, hafa túlkað Íslendingum í hag, allt í óhag, það er túlkað kaþólskara en páfinn. Það er nú bara þannig, þó að það sé grimmt að segja það, að allt of stór hópur Íslendinga, sem hefur farið til embættisstarfa í Brussel og á þennan vettvang, blindast og tekur þátt í því að sýna valdbeitingu gegn íslenskri þjóð, gegn íslenskum hagsmunum.

Hægt væri að nefna mörg dæmi, virðulegi forseti, en ég ætla ekki að fara út í það á þessu stigi vegna þess að það mundi draga máttinn úr þessu stóra verkefni sem við verðum að snúa okkur að og taka upp. Það er alveg sama hvort það er á sviði mannvirkjagerðar á Íslandi, sviði flugs, ýmiss konar þjónustu, leikreglna fyrir fyrirtæki og annað — þetta er slíkur flækjufótur af krókalínu að ekki er nokkur leið fyrir þá sem lenda í því að losna út úr því, jafnvel þó að fimustu menn séu að greiða þá línu.

Það er sem sagt full ástæða til þess, virðulegi forseti, að við Íslendingar gerum ítarlega samanburðarrannsókn á túlkun reglna EES-samningsins er varða viðskipti, samkeppni, styrkjakerfi í iðnaði, landbúnaði og öðrum atvinnugreinum. Og það gengur ekki að láta þetta verkefni eingöngu í hendur embættismanna því að þeir eru að verja þar í ýmsum tilvikum eigin vítalínu. Í þessa úttekt þurfa að koma menn sem eru úr atvinnulífinu. Að sjálfsögðu yrðu embættismenn þar með og sérfræðingar, en þeir sem á reynir í viðskiptum, reynir á í þessum dæmum — ég nefni til dæmis vökulögin hjá vörubílstjórum, sem eru ætluð fyrir undirlendi Evrópu, þar sem bílstjórar þurfa að vera dögum saman, sólarhringum saman, að ferðast á milli landa, þá er þetta tekið upp á Íslandi við 1.400 km hring; og svo koma stöðvunarskyldutímar. Vörubílstjóri á flutningabíl á Holtavörðuheiði í marsmánuði, það spáir austan hríð, hann á að stoppa og sofa í klukkutíma annars verður hann sektaður. Hann stoppar veginn, hann skapar hættu og þetta er allt tóm vitleysa, bara tóm vitleysa. Og við dönsum eftir limum þessa skrímslis og látum bjóða okkur hvað sem er.

Við eigum að taka höndum saman, fara ofan í saumana á þessu fyrirkomulagi, gagnrýnin, ákveðin og kröfuhörð. Þá mun margt lagast í okkar landi.