140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

sala Grímsstaða á Fjöllum.

[13:41]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Það er rangt sem fram kom í máli hv. þingmanns að þessi kaup séu frágengin enda er það svo að íslensk lög heimila þau ekki. Bannað er að selja jarðeignir til einstaklinga utan hins Evrópska efnahagssvæðis. Það eru skýr ákvæði um það í lögum. Hins vegar er heimildarákvæði til að veita undanþágu og það er sú beiðni umrædds einstaklings sem er til meðferðar í innanríkisráðuneytinu og sætir þar venjulegri stjórnsýslulegri athugun. Hér er um stórt mál að ræða og það verður vandað til úrskurðarins sem vonandi liggur fyrir fljótlega. Ég get sagt það eitt að hann mun liggja fyrir eins fljótt og auðið er.