140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

sala Grímsstaða á Fjöllum.

[13:42]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan og spyrja hvort hæstv. ráðherra hyggist veita undanþáguna eða hvort málið eigi að liggja í ráðuneytinu. Ráðherra segir að svars sé ekki langt að bíða og það sé í faglegum undirbúningi, en sporin hræða. Það hefur líka komið fram, virðulegi forseti, að ákveðin hætta er á því að kínversk stjórnvöld neiti viðkomandi aðila hreinlega um leyfi af sinni hálfu til að kaupa jörðin vegna andstöðu hér á landi.

Ég er annars vegar að ganga eftir því og spyrja um hvenær þetta verk verður klárað og hvenær hæstv. ráðherra hyggst gera þetta og hins vegar hvort undanþága verði veitt eða ekki veitt, ef svo fer fram sem horfir, vegna þess að við erum m.a. að loka heilbrigðisstofnunum o.fl. (Forseti hringir.) og okkur vantar tekjur í ríkissjóð. Hér eru miklar tekjur á ferðinni sem mundu verða til nýsköpunar til uppbyggingar, m.a. vinnu í vetur við hönnun og undirbúning. (Forseti hringir.) Veitir okkur nokkuð af því að fá þær tekjur, virðulegi forseti? Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra um það. (Gripið fram í: Það eru skiptar skoðanir …)