140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

byggðastefna.

[13:48]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Takk fyrir það, virðulegi forseti. Ég þakka fyrir fyrirspurnina. Ég hef beðið eftir að þessi umræða komi upp vegna þess að það er alveg rétt sem hv. þingmaður bendir á, Evrópusambandið dregur þá staðreynd fram að hér vanti byggðastefnu en að þingið hafi hins vegar skilað inn byggðaskoðunum í byggðaáætlanir.

Við höfum verið að gera fjölmargt á undanförnum árum og það verður að segjast alveg eins og er að svona dómur á byggðastefnu kemur eingöngu vegna þess að þetta er uppsafnaður vandi, þetta er langtímavandi. Ríkisstjórnin hefur lagt í mikla vinnu til þess að snúa því við. Í fyrsta lagi horfum við til vinnu í tengslum við Sóknaráætlun 20/20. Mér finnst ansi lítið úr henni gert þegar sagt er að hún sé eingöngu áætlun að nafninu til. Hundruð einstaklinga hafa komið að þeirri vinnu um land allt og kjarninn í þeirri stefnu er að færa ákvarðanatöku inn í nærsamfélögin, nær heimamönnum, til landshlutasamtakanna. Það er kjarninn í þeirri stefnu og það skiptir gríðarlega miklu máli.

Ástæðan fyrir þessum vanda er líka sú að við erum með gríðarlega þykka veggi á milli ráðuneyta hér á landi. Það veldur því að iðnaðarráðuneytið fær ekki upplýsingar eða það umboð sem á þarf að halda til að geta markað heildstæða stefnu á sviði fleiri málaflokka en heyra eingöngu undir það ráðuneyti. Það er líka vandamál. Þess vegna höfum við farið í þá vinnu að reyna að brjóta múrana niður, til dæmis með nýlegum breytingum á lögum um Stjórnarráðið, þannig að við erum svo sannarlega að stíga skref í þá átt.

Við höfum líka gert breytingar í Byggðastofnun þannig að til dæmis hef ég fengið áðurnefndan Þórodd Bjarnason til þess að stýra þar skútunni til þess að snúa þessu við. Hann er ekki bara prófessor á Akureyri heldur líka formaður stjórnar Byggðastofnunar, einmitt vegna þess að við viljum (Forseti hringir.) hlusta á önnur sjónarmið og setja slíka menn til verka til að gera á þessu breytingar. Það er ætlun okkar.