140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

eftirlit með símhlerunum.

[13:53]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Í XI. kafla laga um meðferð sakamála er að finna heimildarákvæði um símahlustun og önnur sambærileg úrræði, símhlerun köllum við það í daglegu tali. Með þeim nýlegu breytingum sem gerðar voru á lögunum tryggðum við að eftirlit með þessum rannsóknarúrræðum yrði í höndum ríkissaksóknara.

Nú hefur nýlega komið fram af hálfu ríkissaksóknara að vegna fjárskorts hafi hann ekki haft burði til að sinna eftirliti með þessum rannsóknarúrræðum, en í því felst m.a. að tryggja að þeir sem þurfa að sæta eða hafa sætt hlerun séu látnir vita um leið og rannsóknarhagsmunir krefjast þess ekki lengur að hleruninni sé haldið leyndri.

Á grundvelli þeirra ákvæða er hægt að hlusta á símtöl, taka þau upp, fylgjast með tölvusamskiptum, fylgjast með ferðum fólks, jafnvel setja staðsetningartæki á bifreiðar, taka myndir o.s.frv.

Ég vil bera það undir innanríkisráðherra hvort hann sé mér ekki sammála um það að vegna þess hversu nærri er gengið friðhelgi einkalífs fólks með þessum rannsóknarúrræðum sé afar brýnt að úr þessu verði bætt, að lögbundnu eftirliti með aðgerðunum verði komið í lag hið snarasta, og í öðru lagi hvort ekki komi til álita í ljósi reynslunnar að skipa talsmann þeirra sem þessum rannsóknaraðferðum sæta, líkt og menn hafa gert í Danmörku og í Noregi. Ljóst er að fallist héraðsdómur á beiðni um rannsókn af þessu tagi er enginn til þess að gæta hagsmuna þeirra sem rannsóknirnar beinast að fyrir utan dómarann og af þeim sökum sæta úrskurðir um þessi efni aldrei kæru.