140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

frekari niðurskurður í velferðarmálum.

[14:02]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður sagði í ræðu sinni: „Að sjálfsögðu þarf að skera niður.“ Og það er hin dapri veruleiki sem við erum að glíma við að 20% eða u.þ.b. fimmtungur af tekjum ríkissjóðs hurfu. Því er óhjákvæmilegt ef við ætlum ekki að borga öll okkar útgjöld í gegnum vexti að við verðum að stilla saman tekjur og útgjöld. Þetta er vandamálið sem við glímum við. Það er erfitt að komast hjá því að snerta heilbrigðiskerfið sem er með yfir 100 milljarða af þeim 500 milljörðum sem við höfum til ráðstöfunar þannig að víða hefur verið komið við það. Reynt hefur verið að gera þetta af eins mikilli nærgætni og hægt er, að endurstilla og fara yfir ferla og fyrirkomulag á því hvar þjónusta er veitt og hvernig hún er veitt. Í því samhengi höfum við farið með þrjá hópa í kringum landið allt frá því á haustmánuðum í fyrra og á fyrri hluta þessa árs og síðast með ráðgjafahóp sem hefur liðsinnt okkur í sambandi við þetta með erlendri aðstoð þar sem skoðað hefur verið hvernig við stöndum almennt miðað við erlend samanburðarríki. Almennt stöndum við gríðarlega vel og það er mikilvægast af þessu öllu saman.

Við búum líka í samfélagi sem hefur verið að breytast mjög mikið. Ég hef vakið athygli á því — við hv. þingmaður erum báðir úr Norðvesturkjördæmi — að þegar komið er inn á Vesturland og Vestfirði er t.d. búið að flytja alla mjólkurframleiðslu, nema örlítið á Ísafirði, og alla slátrun af þessu svæði. Raunar inn á Norðurland sem betur fer, það er þá innan kjördæmisins ef við getum litið þannig á það. Þannig hafa þjóðfélagsbreytingarnar áhrif á byggðarlögin og það er sameiginlegt hlutverk okkar að reyna að skilgreina hvar við getum sett varnirnar. Sem betur fer er það svo að á Norðvesturlandi, þ.e. gamla Norðvesturkjördæmi, eru um 25% af störfunum opinber störf. Fækkunin sem hér var nefnd upp á 31 í Skagafirði er sem betur fer ekki öll á heilbrigðisstofnuninni þó að þar hafi verið komið víða við. Ég er nýbúinn að vera á því svæði og er að skoða með heimamönnum (Forseti hringir.) hvar við eigum að setja mörkin, hvernig við eigum að stilla upp heilbrigðisstofnuninni í Skagafirði, og ég vona að við finnum ásættanlega lausn.

Ég mun koma að öðrum spurningum í seinna svari mínu.