140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

frekari niðurskurður í velferðarmálum.

[14:04]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Dæmið sem ég tók úr Skagafirði er eingöngu dæmi. Sama á að sjálfsögðu við um flestar aðrar heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni. Að sjálfsögðu þarf að skera niður og spara, ekki síst, og ég vildi koma því að í seinna andsvari mínu til að undirstrika það, þarf að gera það þegar ekki er verið að auka tekjur ríkissjóðs, þegar ríkisstjórninni bregst algerlega það ætlunarverk sitt að auka tekjur með því að efla atvinnulífið. Þess vegna þarf að skera niður og þess vegna þarf að höggva nærri grunnþjónustunni.

Það er alveg rétt að það hafa orðið þjóðfélagsbreytingar og slíkar breytingar munu verða en einhvers staðar hljótum við að setja mörkin. Ekki er hægt að líkja saman breytingum í atvinnuháttum og kröfunni um arðsemi í atvinnulífinu og öryggi landsmanna, öryggi sjúklinga, öryggi þeirra sem byggja þetta land og þar hljótum við að setja niður fótinn. Það er ekki hægt að breyta heilbrigðisstefnunni í gegnum fjárlögin. (Forseti hringir.) Það þarf að gera með allt öðrum hætti.