140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

frekari niðurskurður í velferðarmálum.

[14:05]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Heilbrigðisstefnan sem fylgt er af núverandi ráðherra er samkvæmt lögum frá 2007. Það er rétt sem hv. þingmaður sagði, það þarf að setja mörk og við þurfum að tryggja öryggi og aðgengi að þjónustu sem víðast um landið. Það er haft að leiðarljósi.

Hv. þingmanni nefndi það að auka þyrfti tekjur. Við þurfum að sjálfsögðu að gera það líka, en við skulum ekki halda að við náum því tekjustigi sem var fyrir hrun árið 2007 og það er frá því sem við erum að tapa tekjum. Við munum ekki byggja aðra Kárahnjúkavirkjun og setja allt í gang og taka 2 þús. milljarða að láni sem einstaklingar til að halda veltu ríkisfjármálanna í gangi. Það er bara staðreynd.

Varðandi spurningu sem ég fékk áðan og svaraði ekki, hvort komi til greina að endurskoða heilbrigðisþáttinn í fjárlagafrumvarpinu. Það kemur að sjálfsögðu til greina. Það er yfirlýsing sem hefur komið frá fleirum en VG, þ.e. að ef við hefðum pening og finnum pening og eigum möguleika á endurskoðun á fjárlagafrumvarpinu þá á það að ganga til heilbrigðismála. Fyrir því hef ég talað og hef fyrir því mörg rök vegna þess að heilbrigðisþjónustan hefur lagt gríðarlega mikið (Forseti hringir.) inn í aðlögunina á ríkisfjármálunum enda eru þau, eins og ég sagði, einn fimmti af fjárlögunum.