140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

staðan í aðildarferlinu við ESB.

[14:37]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Hún er um margt athyglisverð, og augljóst að það er að koma landsfundur. En er ég með skakkt minni, var ekki ályktað um það bæði hjá Sjálfstæðisflokknum og Framsókn að fara í aðildarviðræður? (BÁ: Nei.) (Gripið fram í.) Fyrir kosningar. (Gripið fram í.) Þá er ég að tala um hjá flokksfélögum. (Gripið fram í: Nei.) (Gripið fram í: Nei, nei.) Var ekki ályktað að fara í aðildarviðræður? (Gripið fram í: … Framsókn.) Var það Framsókn? Já, einmitt. Mig minnti að það hefði verið annar hvor. [Hlátur og kliður í þingsal.] Bara til að mismuna ekki flokkunum. (Gripið fram í: Takk.)

Ég er svolítið sammála hæstv. utanríkisráðherra með að við erum í betri stöðu til að fá betri samning. Það er það sem Hreyfingin hefur lagt mikla áherslu á, þeim mun dýpra sem við förum inn í þetta ferli og í raun og veru frá upphafi, að tryggja að framkvæmdin á þjóðaratkvæðagreiðslunni fari vel fram, sé sem lýðræðislegust og að aðgengi almennings að óhlutdrægum upplýsingum sé gott og á mannamáli. Við munum halda áfram að beita okkur fyrir því.

Ég er sammála hv. þm. Margréti Tryggvadóttur um að við fórum á hnjánum inn í þetta ferli sem var ekki gott. Það var ekki gott fyrir þjóð sem var að koma út úr gríðarlega miklu áfalli að fara inn í þetta ferli. Það skapaði ákveðna sundrungu. Ég skora á fólk að koma sér upp úr skotgröfunum og vinna að því að við fáum sem bestan mögulegan samning. Ef það færi svo að þjóðin segði já er þó betra að hafa góðan samning í höndunum en ekki. Aftur á móti sýnist mér á öllu að þjóðin muni hafna samningnum en við vitum það ekki fyrr en við höfum hann (Forseti hringir.) í höndunum. Því finnst mér mikilvægt að virða alla þá Íslendinga sem hafa ekki gert upp hug sinn.