140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

Aukaframlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

[15:05]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir að taka upp þetta mikilvæga mál og minna okkur öll á, sem í raun og veru þarf ekki, hversu mikill vandi sveitarfélaganna er flestra hverra hvað varðar rekstur í dag. Sveitarfélögin eru misjöfn og hafa verið það, þar af leiðandi var Jöfnunarsjóður sveitarfélaga settur á laggirnar til að styðja við hin smærri sveitarfélög sem ekki hafa tekjur til að standa undir lögboðnum verkefnum sem þeim eru falin. Árið 1999 var ljóst að það dugði ekki til. Fólksfækkun varð mikil á sumum svæðum og mikið tekjutap hjá sveitarfélögunum og þá var þessu aukaframlagi komið á. Núna eftir hrun hafa sjóðir sveitarfélaganna tæmst eins og ríkissjóðs. Sveitarfélög eru mörg hver illa sett en af mismunandi ástæðum, þau minni vegna takmarkaðra tekjustofna og hafa enga möguleika á að auka þá, hin stærri eða þau sem tóku þátt í þensluverkefnum, getum við sagt, hafa skuldsett sig mjög mikið. Þau eru hvað verst sett, eins og Álftanes er í dag, sem í raun og veru er búið að missa sitt fjárhagslega sjálfstæði. Úthlutun aukaframlags jöfnunarsjóðs eru viðbrögð til að koma rekstri sveitarfélagsins með ákveðnum skilyrðum á réttan kjöl.

Ég vil minna á sveitarstjórnarlögin sem segja til um hvernig á að fara með fjármál sveitarfélaga. Ég tel að það sé af hinu góða að sveitarfélögin geti ekki (Forseti hringir.) steypt sér í skuldir og verði að gera áætlanir til lengri tíma til þess að forða því að til aukaframlaga komi.