140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

Aukaframlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

[15:09]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Það er rétt sem komið hefur fram í umræðunni að þau sveitarfélög á landinu sem glíma við hvað mesta erfiðleika hvað varðar byggðaröskun eru sveitarfélögin tvö í Vestur-Skaftafellssýslu, Mýrdalshreppur og Skaftárhreppur. Það er þróun sem hefur verið að eiga sér stað á nokkuð mörgum árum. Fólki hefur fækkað mjög ört þar úr tæplega 600 í liðlega 460 í Skaftárhreppi og það er erfitt fyrir sveitarfélögin að bregðast við því. Líflínan er að sjálfsögðu þjóðvegur 1 og sú ferðaþjónusta og landbúnaðarframleiðsla sem er þar í héruðunum, en bráðavandinn er áfram til staðar. Hann birtist í því að sveitarfélögin eru svo fjarri því að vera sjálfbær með tekjur eftir slíka fólksfækkun og standa frammi fyrir mjög miklum vanda. Hann birtist mjög skýrt í umræðunni um það þegar á að draga saman aukaframlag jöfnunarsjóðs að þau geta ekki á neinn hátt mætt 5–6% tekjuskerðingu af því það er ekki af neinu að taka.

Þess vegna er fagnaðarefni að við eigum að ræða bráðavandann í samhengi við framtíðarlausnina sem er, eins og hv. þm. Róbert Marshall kom inn á áðan, auðvitað sú að auka slagkraft sveitarfélaganna, hagkvæmni þeirra, sjálfbærni og stöðu þeirra með því að fækka og stækka sveitarfélögin allverulega. Um leið getum við fært þangað nýja tekjustofna, ný verkefni og heilu málaflokkana, en lausnin á bráðavandanum svo að sveitarfélagið verði sjálfbært felst í því að renna saman sveitarfélögum og gera þeim þannig kleift að þjóna því hlutverki sem þau eiga að gera umfram allt annað, þ.e. að veita íbúunum þjónustu fyrir það skattfé sem til þeirra rennur.

Það er algjörlega fráleitt að reyna að hrópa burt umræðu um bráðavandann og framtíðarlausnina af því það hangir saman. Um leið hvet ég hæstv. ráðherra til þess að endurskoða jöfnunarsjóðinn og aukaframlagið einfaldlega af því að þessi fámennu, dreifbýlu sveitarfélög geta ekki mætt 5% tekjusamdrætti vegna þess að ekki er á neinn hátt hægt að mæta því. (Forseti hringir.) Við eigum um leið að skora á hæstv. ráðherra að beita sér fyrir því sem fram var komið að skoða að sveitarfélögin verði eftir fáein ár 14–15 (Forseti hringir.) en ekki 71–72 eins og staðan er núna.