140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

Aukaframlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

[15:11]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu þó að ég geti ekki sagt að ég sé sáttur við þau skilaboð sem hafa verið að koma út úr umræðunni frá stjórnarliðum að undanskildum hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni sem talaði áðan og hvatti hæstv. ráðherra til að endurskoða þessa ákvörðun sem var einhliða ákvörðun. Það var ekki ákvörðun sveitarfélaganna að verja sérstaklega 300 milljónum af þessu aukaframlagi til þessa tiltekna eina sveitarfélags.

Málið snýst einfaldlega um eftirfarandi: Þannig er að 700 milljónirnar áttu að öllu jöfnu að renna til þeirra sveitarfélaga þar sem staðan var erfiðust vegna skulda. Nú hefur verið tekin sú ákvörðun að skerða þá upphæð um sirka 40% til að ráðstafa þeim peningum, 300 millj. kr., til eins sveitarfélags. Það þýðir að þau sveitarfélög sem þar eru næst í röðinni fá minna í sinn hlut sem nemur þessum 40%. Það er ekki flóknara en það. Réttlætiskenndin virðist sem sagt ganga út á að setja þær byrðar eingöngu á herðar þeirra sveitarfélaga sem standa verst.

Ég hef skilið málflutning hæstv. ráðherra þannig að hann vilji leita að hinum breiðu bökum í þjóðfélaginu. Nú hefur hæstv. ráðherra leitað og fundið breiðu bökin. Þau eru í Skaftárhreppi, þau eru í Vesturbyggð, þau eru í Húnavatnshreppi, þau eru í Skútustaðahreppi. Þetta eru sveitarfélögin m.a. sem eiga að taka á sig skerðingu vegna aukaframlagsins upp á 40%. Það er ekkert rangt reiknað í prósentuútreikningum mínum. Það er einfaldlega þannig að upphaflega var ákveðið að skerða aukaframlagið um 300 milljónir, síðan að taka 300 milljónir aukalega, það er 60% skerðing milli ára fyrir þau sveitarfélög, utan Álftaness, sem eiga að fá úr þessu aukaframlagi.

Ég vil því ítreka og spyr hæstv. ráðherra: Er hæstv. ráðherra staðráðinn í því að láta þessi áform sín ganga eftir að taka 300 milljónir af aukaframlaginu? Það er það sem málið snýst um. Menn geta síðan farið að ræða um sameiningu sveitarfélaga. Ég veit að hæstv. ráðherra er ekki áhugasamur um það, en ég ætla að fullyrða að það mundi (Forseti hringir.) ekki leysa þann bráðavanda sem við er að glíma og menn eiga ekki að reyna að tala sig frá því sérstaka vandamáli sem hér er verið að ræða um með því að drepa þeirri umræðu á dreif. (Forseti hringir.) Við skulum taka þá umræðu, en við skulum líka reyna að leysa þann vanda sem nú er verið að kalla yfir sveitarfélögin, minni sveitarfélögin úti á landi, með þessari einhliða ákvörðun hæstv. ríkisstjórnar.