140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[15:17]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um aðgerðir til að endurreisa íslenskt atvinnulíf. Í mjög grófum dráttum eru þær tillögur byggðar á ferns konar aðgerðum. Í fyrsta lagi að hér þurfi að lækka skatta og auka þannig ráðstöfunartekjur heimilanna. Í öðru lagi að koma af stað fjárfestingu í íslensku atvinnulífi en hún hefur verið í sögulegu lágmarki undanfarin ár. Í þriðja lagi að grípa til aðgerða til að rétta hag heimilanna, leysa úr skuldavanda þeirra en það hefur enn ekki tekist nægjanlega vel. Í fjórða lagi eru lagðar fram tillögur til að taka á stöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja og færð eru fyrir því sérstök rök að það sé brýnt við þær aðstæður sem skapast hafa í íslensku efnahagslífi undanfarin missiri.

Í þessum tillögum er jafnframt farið yfir stöðuna heilt yfir, þ.e. hvernig efnahagslífið hefur þróast á undanförnum árum. Til dæmis er vakin athygli á því að aldrei hafa færri starfað á einkamarkaði til að standa undir öllum opinberu störfunum og öðrum þeim sem eru utan vinnumarkaðar. Einnig er vakin athygli á þeirri staðreynd að á um það bil þremur árum höfum við varið 80 milljörðum í atvinnuleysisbætur. Þær bætur eru bornar uppi af atvinnulífinu í landinu. Þetta dregur saman hversu mikilvægt það er fyrir okkur að vinda ofan af þessari þróun, að hjálpa fólki aftur til starfa, af bótum og í verðmætaskapandi störf.

Mig langar að fara yfir helstu málaflokkana á þeim stutta tíma sem ég hef hér til umráða með því að benda á einstakar tillögur og hvernig þær geti komið að gagni.

Ég hyggst byrja á að ræða um fjármál heimilanna. Það liggur í augum uppi að hækkanir á sköttum hafa bitnað illa, bæði á heimilum og atvinnustarfsemi í landinu. Varla er hægt að nefna nokkurn þann skatt sem ekki hefur verið hækkaður og síðan hafa komið nýir skattar sem hafa gert heimilunum enn erfiðara fyrir með að ná endum saman. Í því tilliti er nærtækt að benda á hækkanir á rafmagni, hækkanir á heitu vatni, hækkanir á tekjuskatti, virðisaukaskatti, eldsneyti o.s.frv. Allt hefur þetta hækkað vegna tillagna sem ríkisstjórnin hefur fengið samþykktar á Alþingi. Fyrstu aðgerðirnar sem við leggjum til til að koma betur til móts við þarfir heimilanna í landinu er að draga til baka skattahækkanir ríkisstjórnarinnar.

Í öðru lagi höfum við hér á þinginu í allt of langan tíma verið að takast á um staðreyndir varðandi stöðu heimilanna, staðreyndir um það að hve miklu leyti fjármálastofnanir hafa komið til móts við heimilin, ráðstafað svigrúmi sem þau hafa haft á efnahagsreikningum sínum til þess að fella niður skuldir. Lengi framan af var umræða um stöðu heimilanna í skugga þess að upplýsingar um raunverulega stöðu þeirra lágu ekki fyrir. Það var ekki fyrr en Seðlabankinn birti ítarlega skýrslu sem meira vit færðist í umræðuna. Þarna hefur ríkisstjórnin algjörlega brugðist. Hún hefur líka brugðist í því að kynna fyrir þingi og almenningi að hve miklu leyti svigrúm bankanna hefur raunverulega verið nýtt til að koma til móts við heimilin. Af þessari ástæðu leggjum við til að Ríkisendurskoðun og viðeigandi aðilum, þ.e. bönkunum, Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum, verði falið að leggja fram upplýsingar um þetta efni fyrir 1. desember.

Í þriðja lagi er lagt til að gætt verði meira jafnræðis í skuldaúrvinnslu vegna heimilanna og er þá vísað til þess að það hefur verið háð því hjá hvaða fjármálastofnun heimilin hafa húsnæðislán sín hvernig hefur verið unnið úr skuldavandanum. Þetta er þvert gegn því sem lagt hefur verið upp með hér á þingi frá því að farið var að takast á við vandann. Þetta hefur þróast á þann veg að sumir fá niðurfellingu sem nemur 110% af húsnæðisverði miðað við fasteignamat meðan aðrir hafa fengið niðurfellingu sem miðast við markaðsvirði eignarinnar, það á sérstaklega við það sem bankarnir hafa gert, fyrst Landsbankinn og síðan Íslandsbanki, að ég hygg. Til að bregðast við þessu misræmi er lagt til að það sem lægra er af fasteignamati eða markaðsvirði verði látið gilda í húsnæðislánum almennt.

Við leggjum líka til að öllum viðskiptavinum Íbúðalánasjóðs verði boðið að færa verðtryggð íbúðalán sín yfir í óverðtryggð lán á föstum vöxtum til fimm ára. Það er stærsta einstaka skrefið sem hægt er að stíga í dag í átt til meiri fjölbreytni í lánamöguleikum — ég gæti líka orðað það svo: í átt til afnáms verðtryggingar. Ekki er lagt til að verðtryggingin verði afnumin enda er það ekki stefna okkar að það sé markmið í sjálfu sér heldur fyrst og fremst að fólk hafi val í þessu efni. Með því að stíga þetta stóra skref er verið að bjóða raunverulegan valkost sem getur komið heimilunum vel við þær aðstæður sem við búum við í dag og við getum byrjað að vinda ofan af þeirri stöðu að verðtryggðu húsnæðislánin séu allsráðandi á húsnæðislánamarkaðnum. Með þessu mun mánaðarleg greiðslubyrði liggja fyrir fimm ár fram í tímann því að vextirnir eru fastir til fimm ára. Ekki mun breytast í heil fimm ár talan á greiðsluseðlinum sem berst um hver mánaðamót.

Við leggjum jafnframt til að þeir sem eru orðnir eignalausir eigi þann valkost að skila fasteign sinni til viðkomandi lánastofnunar treysti þeir sér ekki til að taka tilboði um skuldaniðurfellingu hafi hún borist viðkomandi aðila. Þarna er um praktíska nálgun við raunverulegt vandamál að ræða, þ.e. að þeir sem að öðrum kosti eru augljóslega á leið í þrot eigi þá þessa skjótvirkari leið til að losna undan húsnæðisskuldbindingunni og geti afsalað sér eigninni til viðkomandi fjármálastofnunar gegn því að húsnæðisskuldin sjálf falli niður. Á þingi hafa komið fram enn framsæknari útfærslur á þessari hugmynd, t.d. að almennt sé bannað að gera fjárnám í nokkurri eign þeirra sem kjósa þennan valkost. Ekki er verið að leggja það til hér heldur að einangra niðurfellingu skuldar við húsnæðislánið sjálft. Þetta er sem sagt, þannig að það sé alveg á hreinu, úrræði fyrir þá sem að öðru leyti eru eignalausir og ekki líklegir til að geta staðið í skilum. En þetta er engu að síður mikilvæg viðbót við þau úrræði sem þegar hafa verið innleidd.

Ég ætla að hlaupa aðeins hraðar yfir önnur atriði sem snúa sérstaklega að fjármálum heimilanna, að stimpilgjöld verði afnumin, að afskrifaðar skuldir myndi ekki stofn til álagningar tekjuskatts, að endurskoða verði reglur um endurreikning ólöglegra gengislána, að leitað verði leiða til að auðvelda fyrstu fasteignakaup og að grundvöllur vaxta- og húsaleigubóta verði styrktur í þágu þeirra sem búa við bágust kjörin. Ég gæti nefnt fleira sem snýr að heimilunum eins og talið er upp í þingskjalinu og snertir tolla og vörugjöld og annað þess háttar.

Að lokum ætla ég að nefna eitt atriði sem er það að virðisaukaskattur á barnaföt og nauðsynjavörur tengdar barnauppeldi verði færður í neðra skattþrepið. Þetta er einföld aðgerð, hún er markviss, hún snýr sérstaklega að þeim sem eiga hvað erfiðast með að ná endum saman samkvæmt öllum tölum sem opinberar eru, m.a. frá Seðlabankanum. Það er sjálfsagt og eðlilegt í núverandi stöðu að koma til móts við barnafjölskyldur með markvissum aðgerðum eins og þessari.

Ég ætla næst að ræða um fjárfestingar sem ég hef vikið að að eru í algjöru lágmarki. Við sem þjóð eigum allt undir því að fjárfestingar fari aftur af stað; efnahagslífið á Íslandi á allt undir því. Þess vegna hafa Samtök atvinnulífsins í öllum samskiptum sínum við stjórnvöld lagt svo mikla áherslu á að bæta umhverfið fyrir fjárfestingar. Þess vegna hefur ASÍ lagt svona mikið á sig til að opna augu ráðamanna á Íslandi fyrir því hve mikilvægt það er að fjárfestingar taki við sér. Og við tökum undir þetta.

Það eru nokkur atriði sem mynda grundvöll þess að fjárfestingar taki við sér. Í fyrsta lagi verður að eyða óvissunni um sjávarútveginn. Það er margrætt atriði en við erum komin fram yfir mitt kjörtímabil og óvissan vegna sjávarútvegsins er enn viðvarandi. Þess vegna hafa fjárfestingar í sjávarútvegi hrapað að meðaltali úr 20 milljörðum á ári niður fyrir 5 milljarða síðastliðin þrjú ár á árlegum grundvelli.

Fyrir fjárfestingar er jafnframt mikilvægt að skattumhverfið verði lagað og það þarf að draga til baka skattahækkanir sem hafa verið til þess fallnar að draga úr vilja manna til að fjárfesta.

Í þriðja lagi vil ég nefna að við viljum fá af stað fjárfestingar í orkufrekum iðnaði. Við viljum að það sé skýrt markmið stjórnvalda að nýta þá orkukosti sem til er að dreifa. Við viljum að talað sé þannig til þeirra sem eru að íhuga fjárfestingar á Íslandi í fyrirtækjum sem nýta orku að gata þeirra verði greidd, eftir því sem stjórnvöld geta gert. Því miður höfum við búið við ástand þar sem annar stjórnarflokkurinn sérstaklega talar gegn slíkum fjárfestingum. Því verður að linna.

Enn eitt fjárfestingarsvið sem nærtækt er að líta til er í innviðum samfélagsins, í samgöngukerfunum, þar sem við getum á komandi árum stórbætt bæði lífskjör og umferðaröryggi með því að auka framkvæmdastig á samgöngusviðinu.

Þegar þessir grundvallarþættir eru komnir í lag, fjárfesting í sjávarútvegi hefur tekið við sér af því að umhverfið hefur verið lagað, orkunýtingin fer af stað og við höfum lagað skattumhverfi fyrirtækjanna almennt og byggjum áfram upp samgöngukerfið, þá mun hin almenna fjárfesting hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum jafnframt taka við sér. Þar munar mestu að þegar fjárfesting hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum, öllum þessum venjulegu fyrirtækjum eins og við þekkjum þau, fer af stað munu allir finna fyrir því að þeir búa í landi sem er í vexti.

Fjórða atriðið sem ég vil nefna á þeim tveimur mínútum sem ég á nú óráðstafað snýr að litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Þar er alveg sérstök ástæða til að hafa áhyggjur. Ekki bara vegna þess sem Samkeppniseftirlitið hefur bent á, og snýr að því að ekki séu til staðar réttu hvatarnir fyrir bankana til að ljúka skuldaúrvinnslu þeirra, heldur líka vegna þess sem borist hefur í fréttum undanfarna daga um að á annað hundrað fyrirtækja séu komin í fang bankanna og vegna þess hve stórir lífeyrissjóðirnir eru orðnir í fjárfestingum í íslensku atvinnulífi. Allt þetta dregur upp heildarmynd sem sýnir okkur að algjör grundvallarbreyting er að verða á eignarhaldi stórs hluta íslensks atvinnulífs. Ef menn ætla að láta þetta allt gerast án þess að fylgjast með hverju skrefi getum við endað hér uppi með atvinnulíf þar sem stóru aðilarnir, í gegnum bankana og lífeyrissjóðakerfið, eru búnir að ryðja í burtu á hverjum samkeppnismarkaðnum á fætur öðrum hinum almenna atvinnurekanda. Við hljótum öll að stefna að því að íslenskt atvinnulíf komist aftur í hendur einstaklinganna í þessu landi en séu ekki fyrst og fremst í höndum fjármálafyrirtækja og lífeyrissjóða. Með þessu er ég ekki að gera lítið úr mikilvægi þess að lífeyrissjóðirnir séu virkir fjárfestar í atvinnulífinu en það eru einfaldlega uppi of stór hættumerki til að maður geti horft fram hjá þessum hlutum.

Ég hef í stuttu máli reynt að gera grein fyrir helstu atriðum sem við leggjum áherslu á í tillögum okkar. Einn grundvallarþáttur þessara tillagna, verði þær að veruleika, gripið verði til aðgerða fyrir heimilin, fyrir atvinnulífið, fjárfestingu komið af stað og leyst úr skuldavandanum, litlum og meðalstórum fyrirtækjum komið til hjálpar — hvað mun þá gerast? Þá mun staða ríkissjóðs batna. Það er grundvallaratriði fyrir okkur öll að við höldum ekki áfram að safna upp skuldum á vegum hins opinbera, á vegum ríkisins, og velta þeim áfram á undan okkur á herðar framtíðarkynslóða heldur grípum nú þegar til aðgerða til að loka fjárlagagatinu og byggja þannig raunhæfan og traustan grundvöll fyrir raunverulegri lífskjarasókn í landinu.