140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[15:40]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem vekur þó helst athygli við þessar tillögur sjálfstæðismanna er að hvergi er einu einasta orði eytt á stærsta vandamálið sem við stöndum frammi fyrir, hvernig við ætlum að leysa vanda krónunnar. Hvergi er minnst á peningamálastjórnunina, gjaldmiðilinn. Hvernig er hægt að gefa út 12 síðna blað um efnahagsmálin án þess að minnast einu orði á vanda krónunnar, vanda heimilanna, verðtrygginguna? Verðbólgan er, eins og hv. þingmaður rakti hér áðan, náttúrlega meginvandamálið sem við stöndum frammi fyrir. Hver eru áhrif gengis á verðbólgu, hvaða áhrif hefur það á skuldir heimila o.s.frv.?

Mér finnst það líka einkennilegt hjá flokki sem hefur hingað til kallað sig flokk atvinnulífsins að hann ætlar með engu móti að svara þeim óskum sem berast til dæmis frá aðilum í tækniiðnaði og hugverkaiðnaði sem hafa kallað eftir því að málefni ESB komi á dagskrá svo hægt sé að taka afstöðu til þess hvort skipta eigi um mynt í þessu landi. Sjálfstæðisflokkurinn (Gripið fram í.) ætlar að skila auðu í þessari umræðu. Það eru (Forseti hringir.) vonbrigði.