140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[15:43]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Það er sláandi við þær aðstæður sem nú eru uppi að það skuli vera stjórnarandstöðuflokkarnir sem staldra við og skoða ljósið, hvernig staðan er, og koma fram með efnahagstillögur, við framsóknarmenn um daginn og hér koma sjálfstæðismenn með sínar tillögur. Margar hverjar eru mjög ágætar, auðvitað fjölmargar tillögur sem við framsóknarmenn könnumst jafnframt við og margar sem við getum sannarlega tekið heils hugar undir, um fjármál heimilanna í sambandi við stimpilgjöldin, að auðvelda fyrstu kaup íbúðakaupenda og virðisaukaskatt á barnaföt svo eitthvað sé nú nefnt.

Mig langaði að spyrja um tvennt og fyrri spurningin snýr að skattkerfinu. Á tveimur stöðum, annars vegar um fjármál heimilanna og hins vegar fjárfestinguna, er talað um að falla frá öllum skattahækkunum sem hafa orðið síðan 2009. Hafa sjálfstæðismenn ekki velt því fyrir sér (Forseti hringir.) að koma fram með tillögur sem mundu með einum eða öðrum hætti tryggja meiri jöfnuð en var hér á árum áður, (Forseti hringir.) m.a. í skattkerfinu, eins og til að mynda hefur komið fram í okkar tillögum?