140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[15:51]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Víst áttum við samstarf árið 2007, en það er mikilvægt að læra af þeirri erfiðu reynslu, af því skipbroti sem varð og þeirri slæmu meðferð á ríkissjóði sem þá var upp á 200 þús. millj. kr. tap á hverju ári sem enginn var tilbúinn til að lána okkur. Enginn hefur neitt traust til að koma hér upp og kalla á sams konar hallarekstur. Það er furðulegt að formaður Sjálfstæðisflokksins hafi ekki stærð í sér til að viðurkenna hér að viðsnúningurinn í ríkisfjármálum er lykilatriði í því að endurreisa traust á Íslandi og íslensku atvinnulífi um allan heim og að þær erfiðu ákvarðanir sem teknar hafa verið eru lykilatriði í því. Það sem ég segi er að þrátt fyrir (Forseti hringir.) ýmsa ágæta viðleitni hér er ódýrt hjá Sjálfstæðisflokknum að koma bara og kalla aftur „lægri skatta, lægri vexti, burt með höftin og förum aftur á hausinn“.