140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[16:03]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Magnúsi Orra Schram fyrir ræðuna og hlý orð um hluta efnahagstillagna okkar. Það er þó eitt sem mig langar að benda honum á: Það er ekki rétt sem hann segir að þau viðbrögð að lækka skatta séu ekki í samræmi við það sem tíðkast í kringum okkur. Svíar lækkuðu til dæmis skatta hjá sér til að mæta þeim efnahagshamförum sem nú ríða yfir og Þjóðverjar hafa ekki hækkað sína skatta o.s.frv. Ég tek þessar þjóðir sem dæmi af því að hv. þingmaður nefndi þau lönd.

En ég ætlaði ekki að gera það að umtalsefni mínu heldur ætlaði ég að gera að umræðuefni þá mýtu sem virðist vera komin upp hjá einhverjum hluta Samfylkingarinnar að við séum að skila auðu í gjaldeyrismálum. Nú er það svo að til er fyrirbæri sem heitir hagfræðilegt eða fjármálalegt læsi. Það er ekki hægt að ætlast til þess að allir geti lesið hagfræðilegan og fjármálalegan texta, skilið hann og komið honum til skila en þar sem hv. þingmaður hefur einhverja menntun á því sviði ætla ég honum það ekki. Aftur á móti vil ég spyrja hann aðeins út í læsi hans almennt af því að á bls. 19–22 er í löngu máli fjallað um hvaða stefnu við höfum í gengismálum og í gjaldeyrismálum.

Mig langar jafnframt að spyrja hv. þingmann: Hvort ætlar Samfylkingin að sækja um aðild að norðurbandalaginu eða suðurbandalaginu þegar kemur að því að taka upp evru?