140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[16:07]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í efnahagstillögum okkar segir:

„Árið 2009 var birt viðamikil rannsókn sem unnin var af hagfræðingum við Harvard-háskóla. Þar voru viðbrögð 21 ríkis innan OECD við efnahagskreppu metin og náði rannsóknin aftur til ársins 1971. Borinn var saman árangurinn af því að annars vegar auka ríkisútgjöld til að örva hagkerfið og hins vegar árangurinn af því að lækka skatta. Niðurstaða þessarar rannsóknar var eindregið sú að þau ríki sem höfðu farið þá leið að lækka skatta náðu árangri fyrr og það sem meira var, árangur þeirra var viðvarandi.“

Nú langar mig að spyrja hv. þingmann: Hefur hann dýpri þekkingu eða vitneskju um þessi mál en þessi hópur hagfræðinga við Harvard-háskóla? Hefur hann gert einhverjar aðrar rannsóknir eða á hvaða grunni byggir hann þá vitneskju sína að óráð sé að lækka skatta í kreppu?

En það sem ég gerði að aðalumtalsefni í fyrri spurningu minni var hvort verið gæti að þingmaðurinn hefði ekki lesið framlag okkar til umræðunnar um gengismál, gjaldeyrismál, peningastefnu og fjármál sem er hér á einum fjórum blaðsíðum í skýrslunni. Hvernig stendur á því að hv. þingmaður vill ekki minnast á það og er hættur að tala um að við skilum auðu í gjaldmiðlamálunum?