140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[16:31]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því að þingmaðurinn fór með þessa tuggnu klisju um fjárfestingar í sjávarútvegi og ég sá mig tilknúna til að gera smáathugasemd við það. Nú hefur það komið fram í umræðu að undanförnu að útgerðin hefur fjárfest á síðasta áratug fyrir á bilinu 90–130 milljarða í greininni. Það fer svolítið eftir því hvort menn miða við ársreikninga eða opinberar hagtölur hvort við erum nær 90 milljörðum eða 130 milljörðum, en á þessu bili er fjárfestingin.

Hins vegar er staðreynd að skipastóllinn er um það bil 25 ára gamall að meðaltali þannig að ekki bendir það nú til þess að miklar fjárfestingar hafi átt sér stað í íslenskum sjávarútvegi á árunum fyrir hrun. Umtalsverður kippur varð þó í fjárfestingum bara núna fyrir stuttu þegar Samherji keypti í Brimi þannig að það bendir nú til þess að fjárfestingargeta greinarinnar sé eitthvað að glæðast. Ég vildi þar af leiðandi vekja athygli á þessu hjá þingmanninum, að þetta er klisja sem menn hafa tuggið hér upp í umræðunni á undanförnum mánuðum, klisja sem harla lítil innstæða er fyrir þegar betur er að gáð.

Það kemur líka fram í þessum tillögum sjálfstæðismanna að þeir vilja fjármagna skattalækkanir, vilja að þær fjármagni sig sjálfar, með auknum umsvifum, en maður getur náttúrlega spurt sig líka: Hvaðan eiga þau umsvif að koma? Kvótinn er fastur og ekki vilja menn sjá neina breytingu þar á, ekki í þeim herbúðum þaðan sem þessar tillögur koma. Það vantar kaupendur að raforku. Hvað með ferðaþjónustuna? Það er yfirvofandi heimskreppa og ekki kannski von til þess að (Forseti hringir.) mikið glæðist þar þannig að ég spyr hv. þingmann: Hvaðan sér hann hin auknu umsvif koma ef þessar tillögur að skattalækkunum eiga til dæmis að verða að veruleika?