140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[16:46]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningu hans eða hans stuttu ræðu. Þannig er mál með vexti að það er útskýrt nákvæmlega hvernig þetta gerist. Ef hv. þingmaður hefur hlustað á ræðu mína áðan á hann alveg hreint að hafa náð því samhengi sem var lýst þar, ég held að ég hafi gert það á nokkuð skýran máta.

Síðan er annað mál að það er svolítið furðulegt að tala hér um fjárfestingu. Við erum að tala um samtals fjárfestingu upp á 120 milljarða sem er 30 milljörðum lægri en sú fjárfesting sem ríkisstjórnin skrifaði upp á við aðila vinnumarkaðarins að hún vildi ráðast í en ríkisstjórnin hefur ekki staðið við. Óraunsæið í drifkröftunum er ekki meira en það hjá okkur í Sjálfstæðisflokknum. Jafnframt er algjörlega ljóst, það er alveg sama hversu mikla dramatík hv. þingmaður notar við það, að þær tillögur sem við erum að leggja hérna til byggja á tiltölulega einföldum hagfræðilegum lögmálum. Það er ekki rétt hjá hv. þingmanni að ef af þessari fjárfestingu verður strax á næsta ári, sem ég hef lýst hérna, sé kannski von um einhvern hagvöxt í framtíðinni vegna þess að það er einfalt bókhaldsatriði, það er ekki einu sinni hagfræði í því. Það er einfalt bókhaldsatriði að þessi fjárfesting kallar á þetta mikið vinnuafl og þetta mikið vinnuafl og þetta mikil fjárfesting skapar svo og svo mikinn hagvöxt. Það er því ekki rétt hjá hv. þingmanni að þetta sé byggt á einhverjum vonarpeningi sem alls óvíst sé að (Forseti hringir.) komi fram.