140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[17:00]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Herra forseti. Þær tillögur sem lagðar hafa verið fram af hálfu Sjálfstæðisflokksins snúa að því, eins og hefur verið rætt af þeim hv. þingmönnum sem nú þegar hafa talað fyrir hönd Sjálfstæðisflokks, hvernig hægt er að koma af stað fjárfestingu í landinu og þar með knýja áfram hagvöxt sem mun þá bæta hag heimilanna og ríkissjóðs. Það er grunnhugsunin sem liggur að baki. Sú hugsun er í sjálfu sér hvorki ný né sérstaklega frumleg og meira að segja hefur hæstv. ríkisstjórn komist að sömu niðurstöðu, að nauðsynlegt sé að auka fjárfestingar til að koma hagvextinum af stað.

Gefin var út yfirlýsing af hálfu hæstv. ríkisstjórnar tengd kjarasamningunum þann 5. maí sl. Í þeirri yfirlýsingu kom eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Við blasir að fjárfesting hefur verið of lítil á undanförnum árum og aðgerðir til að örva hagvöxt og skapa störf hljóta að beinast að því að auka arðbæra fjárfestingu hér á landi. Á síðasta ári var fjárfesting undir 200 milljörðum kr. eða 13% af landsframleiðslu og hefur þetta hlutfall aldrei verið lægra. Það er markmið stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins að þetta hlutfall fari stighækkandi og verði ekki lægra en 20% í lok samningstímans, en það jafngildir því að fjárfesting verði ekki lægri en 350 milljarðar kr. á ári.“

Það var sú yfirlýsing sem hæstv. ríkisstjórn gaf frá sér sem var grundvöllur þeirra kjarasamninga sem gerðir voru síðastliðið vor, sem voru grundvöllur þeirra miklu kauphækkana sem samið var um í kjarasamningum vegna þess að aðilar vinnumarkaðarins, ASÍ og Samtök atvinnulífsins, treystu því að sú yfirlýsing sem ríkisstjórnin gaf mundi standa. Því miður hefur ríkisstjórninni gengið illa að leggja fram hugmyndir sínar og áætlanir um það hvernig hún ætlar að standa undir þeim loforðum sem gefin voru til aðila vinnumarkaðarins um fjárfestingar.

Þær hugmyndir sem við sjálfstæðismenn leggjum fram eru í raun og veru svar við því hvernig standa á við það loforð sem ríkisstjórnin gaf sjálf, hvernig standa á við það loforð sem fólkinu í landinu, launþegunum, var gefið um að innstæða væri fyrir þeim kjarasamningum sem gerðir voru síðastliðið vor. Það er grundvallaratriði.

Ég vil segja áður en lengra er haldið að mér þykir skjóta nokkuð skökku við þegar ég heyri yfirlýsingar frá sumum hv. þingmönnum um að óábyrgt sé að leggja til skattalækkanir vegna þess að það muni draga úr tekjum ríkissjóðs og ríkissjóður hafi ekki efni á þeim, að í fyrsta lagi er um að ræða marga hv. þingmenn sem töldu það fullkomlega áhættulaust að skrifa undir fyrsta Icesave-samkomulagið sem hefði kostað ríkissjóð milljarða og aftur milljarða og tugmilljarða á ári. Þá var það mat margra hv. þingmanna að ríkissjóður stæði vel undir slíkum gjöldum og slíkri skuldabyrði og það voru greiðslur út úr landinu og til annars ríkis.

Í öðru lagi er rétt að hafa í huga að sterk rök eru fyrir því sem nefnt hefur verið og er sérstaklega rætt í þeirri greinargerð sem lögð er fram með þessari þingsályktunartillögu. Sú ágæta rannsókn sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson tæpti á í máli sínu og gerð var innan vébanda Harvard-háskóla, leidd af dr. Malkiel, þekktum hagfræðingi sem þó verður seint sakaður um að tilheyra þeim hópi hagfræðinga sem teljast til hægri í stjórnmálaskoðunum, gekk m.a. út á að skoða reynslu ríkja alveg aftur til ársins 1971 og hvernig þau brugðust við því þegar efnahagsvandamál komu upp. Þessum ríkjum var skipt í tvo hópa, annars vegar þau sem reyndu að bregðast við með því að auka ríkisútgjöld og hins vegar þau sem drógu saman og lækkuðu skattana. Niðurstaðan varð sú að þau ríki sem fóru skattalækkunarleiðina voru ekki bara fljótari að ná sér heldur var efnahagsbatinn líka meira viðvarandi. Það skiptir máli.

Það er nefnilega ekki svo að það sé merki um ábyrgð að hækka bara skattana. Það getur leitt til þess að staðan verði erfiðari og erfiðari. Það er það sem við sjálfstæðismenn höfum áhyggjur af, að lausnir ríkisstjórnarinnar virðast einkum og sér í lagi felast í slíkum aðferðum.

Í þriðja lagi, hvað varðar áhyggjur þeirra hv. þingmanna sem komið hafa fram varðandi getu ríkissjóðs og möguleika til þess að lækka skattana, er rétt að benda á það sem kemur skýrt fram í greinargerð, að Sjálfstæðisflokkurinn hefur í engu hvikað frá hugmyndum sínum um að rétt sé að taka til sín, fyrir hönd ríkisins, þá skatta sem ríkið á sannarlega og eru varðveittir í séreignarsparnaðinum. Þar á ríkið tugi milljarða sem fólgnir hafa verið aðilum til ávöxtunar og hugmyndin er auðvitað að nota þá síðar. En vegna þeirra aðstæðna sem uppi eru í íslensku efnahagslífi höfum við lagt til, og lögðum það strax til, að í staðinn fyrir að farið yrði í skattahækkunarferli yrðu þeir skattpeningar nýttir núna, það væri mikilvægara. Hvers vegna? Vegna þess að við værum að missa fólk úr landi og að ekki væri hægt að leggja það á skuldug heimili að hækka skatta á fjölskyldur í landinu. Það er eitt að segja að nauðsynlegt sé að hækka skatta til að hjálpa ríkissjóði en annað að horfa um leið upp á fjölskyldurnar í landinu bera þær skattbyrðar. Það er þess vegna sem Sjálfstæðisflokkurinn lagði það strax til að farin yrði sú leið að nýta þá fjármuni sem ríkið á sannarlega og geymir í séreignarlífeyrissparnaði.

Ég mótmæli því að það sé óábyrgur málflutningur að fara þá leið að reyna að létta álögur á almenning, létta álögur á fyrirtækin og þar með ýta undir fjárfestingu um leið og lagt er til hvernig draga eigi úr útgjöldum ríkissjóðs, á hvaða sviðum, hvar við eigum að bera niður og hvernig við getum aukið fjárfestinguna, á hvaða sviðum og með hvaða aðgerðum.

Eitt af þeim atriðum sem skipta ef til vill mestu máli í þessu er að hér í landinu náist pólitískur stöðugleiki og pólitísk samstaða í sölum Alþingis fyrir því að ýta undir og hjálpa til og knýja áfram þá fjárfestingu sem skiptir svo miklu máli. Það er öllum ljóst hversu illa það gengur hjá núverandi ríkisstjórn að koma sér saman um svo marga þætti sem skipta svo miklu máli hvað varðar fjárfestingar. Uppákoman sem verið hefur í kringum íslenskan sjávarútveg og það ábyrgðarleysi sem það ber merki um hefur stórskaðað hann. Ég minni enn og aftur á að fyrir liggur að ríkisstjórnin, sem hefur einn þingmann í meiri hluta, býr við þá aðstöðu að einn hv. þingmaður stjórnarliðsins hefur lýst því yfir að stuðningur viðkomandi við ríkisstjórnina sé m.a. fólginn í því að ekki verði ráðist í virkjunarframkvæmdir í neðri hluta Þjórsár, sem eru mjög mikilvægar framkvæmdir, hagkvæmar og umhverfisvænar, og liggur þar fyrir vitnisburður margra manna, m.a. þeirra sem nú eru í ríkisstjórn og eru hæstv. ráðherrar.

Að lokum, frú forseti: Í tillögum okkar fer saman góður hagur ríkissjóðs og bætt staða fjölskyldnanna. Það má ekki gleyma því og þarf alltaf að hafa í huga að grundvöllurinn fyrir velferðinni, grundvöllurinn fyrir því að við getum búið fjölskyldunum í landinu þau lífskjör sem við viljum svo sannarlega gera er auðvitað sá að það takist að koma efnahagslífinu aftur af stað, að það takist að koma fjárfestingunni í það horf að við náum atvinnuleysinu niður, að það takist að standa við þá yfirlýsingu sem hæstv. ríkisstjórn gaf aðilum vinnumarkaðarins, Samtökum atvinnulífsins og ASÍ, að tekjur ríkissjóðs aukist og hagur heimilanna batni. Það er lykilatriðið. Það er það sem tillögur okkar sjálfstæðismanna ganga út á. Þær eru ábyrgar, þær eru samkvæmar sjálfum sér og ég fullyrði að ef þær verða (Forseti hringir.) framkvæmdar mun margt horfa til betri vegar hér á landi.