140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[17:24]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Auðvitað er það áhyggjuefni ef fjárfestingar eru í lágmarki, ef það er frost í fjárfestingum. Það er nú reyndar ekki alveg þannig, það er ekki frost í fjárfestingum. Mér finnst hv. þingmaður mikla þetta svolítið fyrir sér, en auðvitað viljum við sjá fjárfestingar glæðast frá því sem verið hefur.

Brottflutningur fólks frá Íslandi er ekki eitthvert nýtt mál sem gerðist í ár eða fyrra eða eftir hrun. Íslendingar hafa á öllum tímum streymt úr landi. Brottflutningur síðustu tvo áratugi að jafnaði hefur verið á bilinu 0,4–0,6% ef marka má opinberar tölur. Það er ekki eins og hann sé jafnmikill og menn láta í veðri vaka.

Oft og tíðum er þetta spurning um að fólk fari til náms og hleypi heimdraganum. Það er auðvitað áhyggjuefni (Forseti hringir.) ef það hefur ekki að neinu að hverfa og vill ekki koma til baka, en það er ekki eins og (Forseti hringir.) einhverjar hörmungar séu að dynja yfir okkur núna.