140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[17:25]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður reyndi að túlka niðurstöður svokallaðrar endurskoðunar- eða sáttanefndar í sjávarútvegsmálum þannig að hún væri algjörlega í samræmi við það frumvarp sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lagði fram í vor og allir þingmenn mér vitanlega hafa núna hafnað, síðast hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir með frægri greinargerð til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Spurningin er þessi: Var þetta frumvarp í meginatriðum í samræmi við tillögur sáttanefndarinnar? Við skulum ekki þrátta um það hér okkar á milli, við skulum bara kalla þá til sem sátu í þessari sáttanefnd og hafa tjáð sig um þetta. Við skulum spyrja sjómannasamtök eins og þau leggja sig, við skulum spyrja ASÍ, við skulum spyrja útvegsmenn, við skulum spyrja smábátaeigendur, við skulum spyrja fiskverkendur. Allir hafa tjáð sig um þetta mál með þeim hætti að þeir hafa sagt að sú afurð sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lagði fram í vor sé ekki í samræmi við þær tillögur (Forseti hringir.) sem þessir aðilar kynntu og lögðu til haustið 2010 í nefndarstarfi (Forseti hringir.) endurskoðunarnefndar.