140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[18:19]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég mótmæli því sem hæstv. ráðherra sagði, að Sjálfstæðisflokkurinn hefði barist gegn öllum félagslegum úrræðum í húsnæðismálum. Við höfum sannarlega verið talsmenn og erum talsmenn séreignarstefnunnar en við höfum líka viðurkennt þörfina á því að hér séu félagsleg úrræði. Við höfum staðið að því, höfum sett um það lög og jafnvel haft forustu um það á Alþingi að setja um það lög.

Ég ætla að ræða þau mál sem snúa að heimilunum. Við vekjum t.d. athygli á því sem er ákaflega mikilvægt mál að þegar verið er að fara þessa svokölluðu 110% leið er í sumum fjármálastofnunum miðað við fasteignamat en annars staðar við markaðsverð. Við erum að benda á þetta misræmi. Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hver er hans skoðun í þessum efnum? Er hann ekki sammála okkur um að það sé óeðlilegt að svo mikið misræmi sé milli fjármálastofnana? Er ekki óeðlilegt að þeir sem eru svo óheppnir að skulda einni fjármálastofnun og þurfa að fara þessa leið skuli fá verri úrræði en aðrir sem eru svo heppnir að vera í viðskiptum við fjármálastofnanir (Forseti hringir.) sem fara þá leið að miða við lægra matið? Telur ekki hæstv. ráðherra að það beri að beina þeim tilmælum til fjármálastofnana að (Forseti hringir.) þær samræmi þetta til hagsbóta fyrir skuldara?