140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[18:27]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður geti ekki horft fyrst og fremst á það við hvern hann talar þegar staðreyndirnar tala sínu máli. Hagvöxturinn í landinu er 3% á þessu ári. (Gripið fram í.) Það getur vel verið að hv. þingmaður skilji það ekki vegna þess að hann sé alltaf að tala við annað fólk og hann sé alltaf að hjala við fólk sem er fyrst og fremst að hjala á hnénu á stóru moggamömmu eins og Halldór Baldursson teiknaði formannskandídata Sjálfstæðisflokksins svo ágætlega í Fréttablaðinu í morgun. Það getur vel verið að hv. þingmaður sé upptekinn af þessu svartnættishjali en það hjal endurspeglar ekki efnahagslegan veruleika í landinu. Þvert á móti erum við búin að ná að komast upp úr kreppu og erum að vinna okkur í átt til trausts og stöðugs hagvaxtar. Það vitlausasta sem við mundum gera í dag væri að endurvekja hagvaxtarmódel Sjálfstæðisflokksins með skuldsetningu og eftirspurnarbólum.