140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[18:36]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er bara einfaldlega rangt sem hv. þingmaður segir, það skortir ekkert á stefnumörkun af hálfu stjórnvalda til að hægt sé að kalla eftir erlendri fjárfestingu í stóriðju hér á landi.

Varðandi það sem hv. þingmaður kaus að gera að umtalsefni í ræðu sinni áðan og hann vísaði aftur í, sem er kynningarfundur sem Vinnumálastofnun stendur fyrir, þá er það einstaklega ómaklegt og ósmekklegt af hálfu þingmannsins (Gripið fram í.) að láta sér detta það í hug að lýsa hefðbundnum reglulegum kynningarfundi Vinnumálastofnunar (Gripið fram í.) um atvinnutækifæri á evrópskum vinnumarkaði sem einhvers konar stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um að fólk eigi að flytja úr landi. Þessir fundir hafa verið haldnir, hv. þingmaður, frá því löngu fyrir hrun og eru hluti af reglubundnu samstarfi sem Vinnumálastofnun ber að sinna vegna aðildar okkar að Evrópska efnahagssvæðinu og hlutverki hennar innan EURES-vinnumiðlunarkerfisins. Hv. þingmaður ætti að kynna sér staðreyndir mála áður en hann veður fram með svo óforskömmuðum hætti og sakar þessa ágætu stofnun og starfsmenn hennar um að reyna að hvetja (Forseti hringir.) fólk til brottflutnings úr landinu. (JónG: Staðreynd samt.) Hv. þingmaður á að kynna sér staðreyndir mála.