140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[18:37]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Nú er ég farinn að þekkja hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra aftur. Gamla frasapólitíkin, upphrópanirnar, fullyrðingarnar — ég var satt að segja farinn að sakna þessa þáttar í fari hæstv. ráðherra vegna þess að hann hefur greinilega vandað sig undanfarnar vikur og mánuði við að falla ekki í dýið sem hann var stundum staddur í og maður man svo vel eftir hér fyrr meir. Þannig birtist hæstv. ráðherra okkur í þessari umræðu og hvað er það sem kveikir bálið í hæstv. ráðherra að nýju? Það eru efnahagstillögur Sjálfstæðisflokksins sem allt í einu búa til einhvern óróleika í huga hæstv. ráðherra. Ekki það að hæstv. ráðherra taki þessu fagnandi eða reyni að ræða þetta málefnalega, nei hæstv. ráðherra lætur þetta greinilega fara mjög í taugarnar á sér.

Ég ætla aðeins að blanda mér í þessa sagnfræðilegu umræðu um samninginn milli okkar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ég var ekkert mjög fjarri vettvangi þegar hann var gerður. Það er út af fyrir sig alveg rétt sem hæstv. ráðherra segir. Það var auðvitað hik og efasemdir uppi í báðum stjórnarflokkunum. Af hverju skyldi það hafa verið? Auðvitað vegna þess að hér var verið að taka býsna stórt skref sem fólst í því að taka upp formlegt samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og kallaði á margar áleitnar spurningar. Ég ætla að fullyrða eitt sem hæstv. ráðherra á að vita, og ef hann veit það ekki get ég upplýst hann um það, að þessar efasemdir komu líka úr ráðherrahópi Samfylkingarinnar. Ég ætla ekki að segja neitt meira um það.

Ástæðan fyrir því að við sjálfstæðismenn leggjum fram þessa tillögu er knýjandi nauðsyn. Við sjáum hvað er að gerast í efnahagslífinu. Við erum að festast í fari stöðnunar og við erum að upplifa það sem er líka gríðarlegt áhyggjuefni að hér er að blossa upp verðbólga. Með öðrum orðum er að kúplast saman þetta tvennt, verðbólga og stöðnun. Það er einmitt það sem hagfræðingar og allir þeir sem velta þessum hlutum fyrir sér hafa yfirleitt mestar áhyggjur af. „Stagflation“ kallast þetta á ensku, ég man ekki lengur íslenska hugtakið á þessu fyrirbrigði. Það er auðvitað hið stóra vandamál.

Vandinn sem við erum að glíma við er heimatilbúinn og hann er ekki síst afleiðing af því sem gert hefur verið á undanförnum tveimur til þremur árum. Vinsælasti frasi stjórnarliðanna þessi dægrin er: Hér varð hrun. En ég vil bæta við: Hér kom nefnilega vinstri stjórn. Ætli það eigi ekki sinn mikla þátt í þeirri stöðu sem uppi er í dag.

Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra vitnaði til þess að hér væri að kvikna einhver hagvöxtur að nýju og ræddi það samhliða því að ræða um samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Ég var á fundi á föstudaginn var þar sem seðlabankastjóri kynnti Peningamál Seðlabankans, m.a. í framhaldi af vaxtaákvörðuninni umdeildu núna á dögunum. Á þessum fundi var upplýst að þær hagvaxtartölur sem við þrátt fyrir allt erum þó að sjá á þessu ári eru fjarri því að vera í samræmi við þau markmið og þær áætlanir og plön sem lagt var upp með í samstarfssamningnum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Af hverju skyldi það vera? Ætli það hafi ekki eitthvað með það að gera hvernig stjórnarfarið er að öðru leyti í landinu. Þrátt fyrir það að menn séu að reyna að fara eftir samstarfssamningnum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn erum við samt sem áður í þessum vanda, einfaldlega vegna þess að ríkisstjórnin leggur stein í götu fjárfestinga í landinu. Það var einmitt það sem seðlabankastjórinn Már Guðmundsson sagði á þessum fundi. Hann vakti athygli á því að við þyrftum að byggja hagvöxt okkar á útflutningi. Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra tók svo sem undir það og sagði að mikilvægt væri að hagvöxturinn væri útflutningsdrifinn. Það er auðvitað sjálfbær hagvöxtur. En seðlabankastjóri sagði líka: Það er því mikilvægt að greiða fyrir fjárfestingu í útflutningsgreinum. Er það gert? Tökum þær tvær greinar sem eru langstærstar í vöruútflutningi okkar, og tökum sjávarútveginn fyrst. Er verið að greiða fyrir fjárfestingu í sjávarútveginum? Nei. Fjárfesting í sjávarútveginum er innan við 5 milljarðar kr. Hún hefur að jafnaði verið í kringum 20 milljarðar á síðustu árum og miðað við þá þurrð, það fjárfestingarsvelti sem er í greininni er alveg ljóst að það er varlega áætlað að fjárfestingin geti numið 25–30 milljörðum á ári á næstu árum, 60 milljörðum kannski á næstu tveimur árum. Það munar um minna. Blasir ekki við hverjum einasta manni að ef hér á að verða viðreisn í efnahagslífinu þá verður sjávarútvegurinn, okkar mikilvægasta útflutningsgrein, að koma að þeirri viðreisn? En honum eru allar bjargir bannaðar. Það er bókstaflega verið að koma í veg fyrir að sjávarútvegurinn fái tækifæri til að taka þátt í þeirri efnahagslegu viðreisn sem hvarvetna er kallað eftir.

5 milljarðar eru auðvitað fjárfesting og hvar skyldi hún nú vera? Ég hef verið að reyna að glöggva mig aðeins á þessu, meðal annars með því að spyrjast fyrir hjá þeim sem selja fjárfestingarvörur. Það sem virðist vera áberandi er að það eru einkanlega stærri fyrirtæki, betur megandi fyrirtæki, sem standa að slíkri fjárfestingu. Hinir minni, hinir veikari, treysta sér auðvitað ekki til þess í því óvissa rekstrarumhverfi sem hér ríkir. Þannig að nú erum við að sjá tvennt gerast. Annars vegar litla fjárfestingu í sjávarútveginum sem gerir að verkum að samkeppnisforskotið sem við höfum sannarlega notið í greininni er smám saman að étast upp. Og hins vegar að það er að verða bil milli þeirra fyrirtækja sem hafa meiri fjárhagslega burði, telja sig hafa meira borð fyrir báru og óttast kannski minna árásir ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálunum af þeim ástæðum, og minni einstaklinganna en það eru einmitt þau fyrirtæki sem ríkisstjórnin skreytir sig með og segist vilja styðja við bakið á. Þetta er auðvitað gríðarlega alvarlegt mál.

Það sama getum við sagt um stóriðjuna. Það blasir við að ríkisstjórnin hefur dregið lappirnar í þeim efnum. Það verður ekki annað sagt. Við vitum að annar stjórnarflokkurinn hefur það bókstaflega á stefnuskrá sinni að vinna gegn uppbyggingu á stóriðjusviðinu hvarvetna í landinu. Þess vegna er ákall seðlabankastjóra á fundinum á föstudaginn mjög athyglisvert þegar hann segir að mjög mikilvægt sé að greiða fyrir fjárfestingu í útflutningsgreinum. Hann vekur líka athygli á því að þetta lága fjárfestingarstig sé nú þegar farið að hafa alvarleg áhrif á útflutning á vöru og þjónustu. Hann segir að útflutningur á vöru og þjónustu vaxi um 2,5% í ár og að meðaltali undir 2% næstu tvö árin og segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Það eru ekki glæsilegar horfur í ljósi þess að raungengi krónunnar er um þessar mundir rúmlega 20% undir sögulegu meðaltali.“

Hann vekur síðan athygli á að lágt fjárfestingarstig og lítill vöxtur útflutnings séu tengd fyrirbæri. Með öðrum orðum, það sem menn eru að gera gagnvart atvinnulífinu, m.a. stóru útflutningsgreinunum, hefur þau áhrif að útflutningurinn vex ekki eins og hann gæti gert. Aðstæður eru sérstaklega hagstæðar. Álverð hefur verið mjög hátt fram undir þetta, fiskverð hefur verið tiltölulega gott, aðstæður á mörkuðum býsna góðar hjá okkur, það hefur gengið vel að fiska, þorskstofninn er t.d. vaxandi, makríllinn hefur verið mikið búsílag, það horfir vonandi þokkalega með loðnuna þannig að við ættum auðvitað að vera að sjá mikinn vöxt í útflutningi stóru útflutningsgreinanna. En þá er ríkisstjórnin að róa á hitt borðið og rær gegn okkur með afstöðu sinni varðandi þessar útflutningsgreinar og það dregur síðan úr möguleikum þeirra til að vaxa. Allt þetta helst í hendur.

Ég ætla líka að vekja athygli á einu. Bent hefur verið á að sá hagvöxtur sem hæstv. ráðherra var að stæra sig af er m.a. drifinn áfram af birgðabreytingum. Miklar birgðir voru til um áramótin og menn voru að selja þær, t.d. var hérna töluverð uppsjávarveiði og -vinnsla fyrir áramótin sem menn voru að selja. Birgðabreytingarnar hafa auðvitað þau áhrif að útflutningurinn vex og það skapar síðan hagvöxt. Það má líka nefna að hér hefur orðið vöxtur í einkaneyslu. Seðlabankinn leggur hins vegar mikla áherslu á að þessi vöxtur í einkaneyslunni sé ekki sjálfbær. Aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands gagnrýndi t.d. launahækkanirnar mjög harðlega. Þannig að við erum að sjá einmitt það sem hæstv. ráðherra sagði áðan, bóluhagkerfi að þessu leyti, við erum með ósjálfbæran hagvöxt sem m.a. byggist á einkaneyslu sem er knúin áfram af launabreytingum sem Seðlabankinn sjálfur segir að standist ekki (Gripið fram í: Og séreignarsparnaðurinn.) og til viðbótar er það séreignarsparnaðurinn sem ekki er endalaust hægt að ganga á. Við sjáum af þessu að þetta hagvaxtartal er blekking og byggt á sandi. Ég held að hæstv. ríkisstjórn ætti að hætta að skreyta sig með einhverjum fjöðrum, sem ég segi ekki að séu stolnar en eru a.m.k. þannig að þær gera ekki þann fugl sem ríkisstjórnin er fleygan, (Forseti hringir.) þrátt fyrir mikinn vilja til að hreykja sér. Ég held að hæstv. ríkisstjórn ætti að líta í eigin barm, (Forseti hringir.) horfa raunsætt á hlutina en vera ekki að búa til óeðlilegar væntingar og glansmyndir af sjálfum sér sem allir sjá í gegnum nema hún.