140. löggjafarþing — 19. fundur,  9. nóv. 2011.

störf þingsins.

[15:03]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Forseti. Fátt hefur verið meira í umræðunni hér á landi undanfarna mánuði, ár og jafnvel áratugi en verðtryggingin og það fyrirkomulag sem Íslendingar hafa á verðtryggingu neytendalána sem er einsdæmi í öllum heiminum. Það hefur verið erfiðara en orð fá lýst að reyna að koma þessu kerfi að þar sem einhverjir virðast hafa tök einhvers staðar, m.a. inn í stjórnmálin, til að koma í veg fyrir það.

Í gær kom út könnun á vegum Capacent sem var gerð af Hagsmunasamtökum heimilanna. Í þeirri könnun var spurt m.a., með leyfi forseta, þeirrar einföldu spurningar: Ert þú hlynntur eða andvígur afnámi verðtryggingar? Þeir sem voru hlynntir, mjög hlynntir eða frekar hlynntir afnámi verðtryggingar voru 80% svarenda. Þeir sem voru andvígir eða frekar andvígir afnámi verðtryggingar voru 7,7% svarenda. Vonandi mun þetta endurspegla fylgi þeirra flokka í næstu kosningum, þegar gengið verður til kosninga, sem styðja svo mjög við verðtrygginguna og koma í veg fyrir það nánast í viku hverri að hún verði afnumin.

Frú forseti. Könnunin tekur líka á þeim stjórnmálaflokkum sem eru á þingi og þar kemur í ljós að 82% kjósenda Framsóknarflokksins, 79% kjósenda Sjálfstæðisflokksins, 76% kjósenda Samfylkingarinnar, 76% kjósenda Vinstri grænna eru frekar hlynnt eða mjög hlynnt afnámi verðtryggingar.

Svo að þessu sé haldið til haga í þingsal þá eru þetta kjósendur þingmanna og þingmenn eru að bregðast kjósendum sínum ef þeir sinna ekki þessu máli fyrir þá. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)