140. löggjafarþing — 19. fundur,  9. nóv. 2011.

störf þingsins.

[15:05]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur hvort hún telji að háir skattar ýti undir skattsvik. Slík ummæli féllu í þingsal þegar verið var að kynna skýrslu ríkisskattstjóra og aðila vinnumarkaðarins. Í skýrslunni komu fram upplýsingar um að 12% starfsmanna lítilla og meðalstórra fyrirtækja stunduðu svarta vinnu.

Ef, frú forseti, háir skattar ýta undir svarta starfsemi ætti hún að vera mun umfangsmeiri í háskattalöndum, á Norðurlöndunum, en í lágskattalöndum Suður-Evrópu. Þessu er öfugt farið. Í Suður-Evrópu er svarta hagkerfið talið vera um 25–30% af vergri landsframleiðslu en ekki nema um 10% á Norðurlöndunum. Þættir sem hagfræðingar telja að skýri mismikla svarta atvinnustarfsemi eru flóknar skattareglur, spilling og viðvarandi atvinnuleysi. Samkvæmt skattsvikaskýrslunni er mikil vanþekking hér á landi á skattalöggjöfinni og agaleysi þegar kemur að því að gefa út reikninga. Það má rekja þetta agaleysi til virðingarleysis fyrir lögum og reglum í samfélaginu. Þessu er hægt að breyta með því að einfalda leikreglur, auka fræðslu og beita viðurlögum þegar ekki er farið að lögum og reglum sem er ansi oft.

Almennt virðingarleysi fyrir lögum verður til þess að bæði fyrirtæki og fólk er ekki samkeppnishæft nema stela fjármagni sem nota á til að fjármagna velferðina í landinu.

Frú forseti. Slíkt samfélag elur af sér ójöfnuð og spillingu. Þetta er spurning um að draga úr skattsvikum til að hafa svigrúm til að lækka skatta.