140. löggjafarþing — 19. fundur,  9. nóv. 2011.

störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ég ætla að eiga hér orðastað við hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, formann velferðarnefndar, um mál sem snýr að athvarfi fyrir fólk með geðraskanir sem heitir Vin og tók til starfa í ársbyrjun 1993 og hefur verið starfrækt óslitið síðan eða í 18 ár. Markmiðið hefur verið frá upphafi að draga úr félagslegri einangrun geðfatlaðra og draga úr endurinnlögnum á geðdeildir. Það markmið hefur svo sannarlega gengið eftir og er reynslan af rekstri skýlisins að öllu leyti til mikillar fyrirmyndar.

Nú háttar hins vegar svo til að Rauði krossinn sem hefur rekið Vin í allan þennan tíma ákvað að hætta starfseminni 1. apríl 2012 af því að tekjur Rauða krossins hafa ekki staðið fullkomlega undir henni. Hins vegar ljóst að sparnaður Rauða krossins mun birtast sem kostnaður annars staðar í kerfinu og ekki síst í heilbrigðiskerfinu með auknum innlögnum og félagslegri einangrun geðfatlaðra. Margir af fastagestum Vinjar leituðu áður reglulega til geðdeilda, sumir oft á ári, en hafa ekki þurft að leita sér hjálpar árum saman út af starfrækslu skýlisins.

Það er mikið í húfi að leysa þetta mál sem allra fyrst og veit ég að hæstv. velferðarráðherra hefur tekið mjög vel í málið. Mun ég freista þess að eiga við hann orðastað um þetta í fyrirspurnatíma síðar. Hann hefur rætt þetta við forsvarsmenn Vinjar og þá sem eru að berjast fyrir því að skýlinu verði ekki skellt í lás og það verði áfram opið og starfrækt.

Því vildi ég spyrja hv. formann velferðarnefndar um viðhorf hennar til þessa, af því að ég veit að sterk skilaboð frá þinginu styrkja ráðherrann í þeirri stöðu. Það er lagt til af Vinjarfélaginu, sem var stofnað í október síðastliðnum, að fjórir aðilar taki höndum saman og gerður verði samningur til þriggja ára, þ.e. Rauði krossinn, Reykjavíkurborg, velferðarráðuneytið og Vinjarfélagið, og saman skaffi þessir fjórir aðilar þá 21 milljón sem þarf til að halda þessu merkilega þjóðþrifaverkefni áfram úti sem er okkur öllum til sóma að verði gert.