140. löggjafarþing — 19. fundur,  9. nóv. 2011.

störf þingsins.

[15:35]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að tjá mig lítillega um vöffin þrjú ef svo má kalla það í störfum þingsins í dag, þ.e. verðtrygginguna, Vaðlaheiðargöng og Vin.

Fyrst örstutt um verðtrygginguna. Ég tek undir með þeim sem hér hafa oft staðið og sagt að það sé og verði að vera eitt af forgangsverkefnum okkar að afnema verðtrygginguna. Ég tek heils hugar undir það. Það er mjög brýnt og mikilvægt fyrir fjölskyldur og heimilin í landinu.

Varðandi Vaðlaheiðargöng held ég líka að það sé mjög jákvætt og allir hljóti að fagna því þegar svo gríðarlega mikið ber á milli þeirra aðila sem meta forsendur allra kostnaðaráætlana við þessa framkvæmd, því þá hlýtur að myndast samstaða um að fá til óháðan aðila sem meti framkvæmdina og grunn hennar og fram komi óháð álit þegar um svona gríðarlega kostnaðarmikla og stóra framkvæmd er að ræða. Ég sé ekki að einhver geti sett sig upp á móti því. Það er bara jákvætt skref.

Varðandi Vin vil ég segja að það er einstakt athvarf og ég hef verið svo lánsöm að kynnast starfseminni þar í þó nokkur ár. Þetta er sannkölluð vin í eyðimörkinni og það væri slys ef Vin yrði lokað. Þarna er mikil þekking, mannauður og mannkærleikur og hlýtt heimili fyrir fólk í samfélagi okkar sem þarf líklega mest af öllum á slíku athvarfi og slíkri vin að halda. Hér er um að ræða smápeninga og sérstaklega (Forseti hringir.) ef allir leggjast á eitt við að tryggja áframhaldandi starfsemi athvarfsins.