140. löggjafarþing — 19. fundur,  9. nóv. 2011.

Vestfjarðavegur 60.

[15:51]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Enn einu sinni ræðum við þetta vandræðamál sem er vegalagning í Gufudalssveit. Til að gera langa sögu stutta átti ég sem samgönguráðherra, eftir úrskurð Hæstaréttar, fjölmennan samráðsfund á Patreksfirði eins og hæstv. núverandi innanríkisráðherra og átti líka samráðsfund með sveitarstjórnarfólki og heimamönnum á þessu svæði. Eftir þá fundi sannfærðist ég enn einu sinni um það að eina færa leiðin til að leggja láglendisveg í Gufudalssveit er eftir svokallaðri B-leið.

Í framhaldi af því og í framhaldi af þessum fundum, þar með talið að mér fannst með samþykki allflestra þingmanna Norðvesturkjördæmisins, skrifaði ég Vegagerðinni bréf þar sem ég fól henni að vinna að nýju umhverfismati samkvæmt leið B á þessu vegsvæði. Til að hæstv. innanríkisráðherra þurfi ekki að eyða tíma sínum í það, vegna þess að ég hygg að hann vilji láta það koma fram, var þetta í lok ágúst í fyrra, nokkrum dögum áður en ég hætti sem samgönguráðherra. En ég vil líka taka það skýrt fram að ég vissi ekki af því fyrr en deginum áður en sú gjörð var gerð. Það er annar handleggur og skiptir ekki máli í þessu samhengi.

Aðalatriðið er að Vegagerðinni var falið að hefja þetta nýja ferli. Ég vil því spyrja hæstv. innanríkisráðherra: Af hverju er það ferli ekki í gangi núna, þ.e. að Vegagerðin sé byrjuð að vinna nýtt umhverfismat? Ég er sannfærður um að þegar umræddum vegakafla, sem ráðherra ræddi hér áðan, sem hefur fjárveitingu í samgönguáætlun, þ.e. Eiði í Vattarfirði eð Kjálki í Kjálkafirði — þegar því lýkur gæti því ferli verið lokið sem ég er hér að tala um.

Ég ítreka spurningu mína til hæstv. ráðherra: Af hverju er Vegagerðin ekki að vinna þetta? Hefur hæstv. núverandi innanríkisráðherra kippt þessari ákvörðun til baka?