140. löggjafarþing — 19. fundur,  9. nóv. 2011.

Vestfjarðavegur 60.

[15:55]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem við ræðum þessa vegagerð og ég óttast að þetta verði heldur ekki í það síðasta. Þetta er að mínu mati brýnasta verkefnið í íslenskum samgöngumálum um þessar mundir. Ég ætla í sjálfu sér ekki að dvelja mikið við fortíðina, ég vil hins vegar halda einu til haga: Ég er eindregið þeirrar skoðunar að besta leiðin sem við eigum völ á um þessar mundir sé sú að fara þessa B-leið þó að hún sé ekki sérstaklega góð leið í pólitík. En ég held hins vegar að við ættum að fara þá leið.

Ég er hins vegar alveg tilbúinn til að skoða aðra kosti ef við getum fundið fullnægjandi niðurstöðu. En það er eitt sem verður að liggja fyrir og það er það sem hefur komið fram af heimamanna hálfu, þ.e. að þetta verði að vera láglendisleið. Ég lít þannig á að heimamenn hafi hafnað þeirri hugmynd hæstv. ráðherra að fara yfir hálsana og nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé ekki alveg ljóst að sú leið sé hér með úti af borðinu. Menn þurfi heldur ekki að vera að þræta um það, menn geti hætt að vera að tala um leið sem engum líst á fyrir vestan.

Í öðru lagi er ljóst að við höfum ekki mikinn tíma fyrir okkur. Nú á að fara að bjóða út það verkefni sem hæstv. ráðherra rakti. Það mun mögulega taka þrjú ár að ljúka því. Þá þarf að liggja fyrir umhverfismat, þá þarf að vera búið að gera sér grein fyrir tæknilegum möguleikum. Þá þarf að vera búið að fara í gegnum allar þær síur sem þarf að fara í gegnum. Þá þarf að vera búið að hanna veginn og þá þarf sú vegagerð að vera tilbúin í útboð og þá þarf að hafa náðst sátt um það mál.

Nú vil ég því spyrja hæstv. ráðherra: Er það ekki tryggt að sú leið sem verður ofan á, eftir það ferli sem ég er að ræða um, verði tilbúin til útboðs eigi síðar en eftir þrjú ár? Ég hvet hæstv. ráðherra til að beita sér fyrir því að sett verði upp tímasett verkáætlun (Forseti hringir.) af hálfu Vegagerðarinnar sem geri það að verkum að þetta takist. Það mun ekki ganga að bjóða íbúum á Vestfjörðum upp á það (Forseti hringir.) enn og aftur að sjá tafir, við getum ekki þolað það lengur. Við verðum að fá það tryggt (Forseti hringir.) að þessi vegagerð verði boðin út ekki síðar en eftir þrjú ár.