140. löggjafarþing — 19. fundur,  9. nóv. 2011.

Vestfjarðavegur 60.

[16:05]
Horfa

Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á að þakka góðar undirtektir frá ráðherrum og samþingmönnum hér í sal, það undirstrikar náttúrlega skilning á mikilvægi þessa máls. Ég er jafnframt ánægð með að það verk skuli vera hafið af hálfu Vegagerðarinnar að verið sé að skoða allar láglendisleiðir.

Á fjölmennum íbúafundi sem haldinn var á Patreksfirði í september undirstrikaði ég að ég vildi sjá allar þær leiðir fara í umhverfismat. Ég tel að B-leiðin eigi ekkert að vera undanskilin. Búið er að rannsaka það svæði og náttúrurannsóknir hafa verið gerðar þar síðan árið 1999. Það eru því ýmis gögn sem liggja fyrir.

Þá komum við aftur að því að tímafaktorinn er gríðarlega mikilvægur. Það sem við erum að kalla eftir, og ég get ekki betur heyrt en hæstv. innanríkisráðherra og aðrir þingmenn séu sammála okkur um það, er að við setjumst yfir málið aftur en við höfum mjög stuttan tíma. Þá verða allir, skipulagsvaldið í landinu, náttúruverndarsamtök, umsagnaraðilar og aðrir, að virða alla tímafresti og tryggja að við getum verið eftir þrjú ár í síðasta lagi tilbúin með nýja láglendisleið til útboðs. Kannski verður það B-leiðin, það má vel vera úr niðurstöðu umhverfismatsins, en við eigum að leggja af stað aftur í þá vinnu.

Ég vil biðja hæstv. innanríkisráðherra að beita sér fyrir því að gert verði svokallað format á leið A. Við þurfum öll að leggjast á eitt og klára þetta mál fyrir alla landsmenn, og síðast en ekki síst að Fred Flintstone komist til okkar.

Ég þakka þá umræðu sem hér hefur átt sér stað. Ég ítreka spurningu mína til hæstv. innanríkisráðherra.