140. löggjafarþing — 19. fundur,  9. nóv. 2011.

fundarstjórn.

[16:10]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Á þingflokksfund okkar sjálfstæðismanna fyrr í dag barst eftirfarandi bréf frá forseta Alþingis til þingflokksformanna. Með leyfi forseta:

„Forseti ætlar að ljúka þingfundi kl. 16.30 í dag svo að fundur geti orðið í fjárlaganefnd til að taka út fjáraukalög.“

Síðan var það tilkynnt nú við upphaf þessa þingfundar að ætlunin væri að ljúka fundi kl. 17 í dag. Af því tilefni vil ég taka eftirfarandi fram:

Um þetta mál var ekki haft samráð, a.m.k. ekki við okkur í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Þetta kom okkur algjörlega á óvart. Ég vil hins vegar vekja athygli á því að gert var samkomulag um að 2. umr. fjáraukalaga gæti farið fram á morgun og að málið, fjáraukalagafrumvarpið, yrði tekið úr nefnd núna í morgun. Það varð ekki. Einhver vandræðagangur er í því eins og allir vita.

Nú vil ég spyrja hæstv. forseta: Hvað veldur þessu? Hver er skýringin á því að málið var ekki tekið úr nefndinni? Hver er skýringin á því að okkur er einfaldlega tilkynnt um það í upphafi fundar og á þingflokksfundi að ljúka eigi fundinum með þessum hætti? (Forseti hringir.) Hefur þetta áhrif t.d. á fyrirætlanir um að umræðan um fjáraukalögin geti farið fram á morgun?